Seðlabanki Íslands hefur tekið yfir Hildu og við það eignast 10% hlut í Sögu Fjárfestingabanka. Auk þess er Seðlabankinn kominn með 19,6 milljarða króna ríkislánið, sem Saga fékk í mars 2009, aftur í fangið.

Seðlabanki Íslands telur ekki heppilegt að hann eigi hlut í fjármálafyrirtæki og almennt er ekki gert ráð fyrir því. Þetta kemur fram í svörum bankans við fyrirspurn Viðskiptablaðsins vegna málefna Sögu Fjárfestingabanka.

Í svörum bankans segir að við því verði ekkert gert á þessu stigi að eiga 10% hlut í Sögu „þar sem þetta er afleiðing þess að bankinn sat uppi með kröfur á fjármálafyrirtæki í framhaldi af hruninu og þarf að endurheimta sem mest af þeim til að varðveita eiginfjárstöðu sína“.

Ekki er gert ráð fyrir því að dótturfélagið Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ), sem heldur á hlutnum í Sögu, taki þátt í hlutafjáraukningum hjá bankanum ef ráðist verður í þær. Í svari Seðlabankans segir að „það er almennt ekki gert ráð fyrir að Seðlabankinn eignist hluti í fjármálafyrirtækjum. Jafnvel þótt eignirnar hafi fallið bankanum í skaut eftir hrunið vegna úrvinnslu skuldamála þá er ekki gert ráð fyrir að bankinn taki ákvörðun um að leggja fyrirtækjunum til nýja hluti“. Það er markmið ESÍ að selja allar eignir sínar þegar markaðsaðstæður leyfa. Eignarhluturinn í Sögu er ekki undanskilin því markmiði.