Fjármálaeftirlitið lýsir yfir vonbrigðum með þann dóm Hæstaréttar að staðfesta úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um frávísun í málum FME á hendur Magnúsi Ármann og Birni Þorra Viktorssyni. Þann 30. október síðastliðin ákvað stjórn FME að höfða dómsmál vegna myndunar virks eignarhlutar í Sparisjóði Hafnarfjarðar.

Í tilkynningu FME kemur fram að málavextir eru í stuttu máli þeir að í kjölfar athugunar komst Fjármálaeftirlitið að þeirri niðurstöðu að virkur eignarhlutur hefði myndast í Sparisjóði Hafnarfjarðar í andstöðu við lög. Í framhaldi af því var atkvæðisréttur þeirra stofnfjáreigenda sem taldir voru mynda hina virku eignarhluti takmarkaður við 5%, sbr. sérákvæði um sparisjóði í lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Meirihluti þessara aðila kærðu ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins til sérstakrar kærunefndar sem felldi þær úr gildi.


Frávísun Héraðsdóms Reykjavíkur byggði á því að FME hafi, þann 8. desember sl., veitt samþykki sitt fyrir samruna Sparisjóðs Hafnarfjarðar og Sparisjóðs vélstjóra. Í dómnum kemur fram að ógilding á ákvarðanatöku kærunefndar taki ekki til eignar í hinum nýja sameinaða Sparisjóði, Byr, eða ákvarðanatöku innan hans, heldur í sjóði sem er ekki lengur til. Ógilding á úrskurði kærunefndar myndi því engu breyta um réttarstöðu málsaðila nú og var málinu því vísað frá. Staðfesti Hæstiréttur þetta í dag.

Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME segir niðurstöðuna dapurlega. ,,Í ljósi mikilla hræringa á sparisjóðamarkaðnum óskuðum við eftir flýtimeðferð hjá héraðsdómi þegar við höfðuðum dómsmálið þann 30. október síðastliðinn. Það að niðurstaða hafi fyrst legið fyrir, fimm mánuðum síðar, og þá einungis um formsatriði, er óheppilegt. Það sem er slæmt að stefndu gátu tafið framgang málsins með allskonar formkröfum, en þær urðu alls sex, fimm var vísað frá, en sú sjötta og síðasta sem kom fram í mars, tekin til greina?. Jónas bendir á að frávísun héraðsdóms og staðfesting Hæstaréttar tengist ekki hinu eiginlega SPH máli heldur byggi á því að FME hafi veitt samþykki fyrir samruna SPH við SPV þann 8. desember sl., rúmum tveimur mánuðum eftir að óskað hafði verið eftir flýtimeðferð málsins. ,,FME taldi ekki forsvaranlegt að halda samrunaferlinu í gíslingu vegna þessa máls. Það hefði ekki verið góð stjórnsýsla?, segir Jónas Fr. Jónsson í tilkynningu eftirlitsins.

Þar kemur ennfremur fram að FME telur miður að málinu sé lokið án þess að öll atvik þess hafi komið fram í dagsljósið og fengið prófun fyrir dómstólum.