,,Mér finnst auðvitað mjög óheppilegt ef lánabækur bankanna eru bara komnar út um hvippinn og hvappinn og ég held að það geti ekki verið eðlileg framganga á svona málum," sagði Hermann Guðmundsson, forstjóri N1 en upplýsingar um félög tengd þeim má finna í lánabókum kaupþings sem nú hafa verið gerðar opinberar.

,,Þær upplýsingar sem birtust um félagið Umtak, sem er fasteignafélag utan um eigur N1 - við gerum engar athugasemdir við þær fréttir. Þær lántökur voru með eðlilegum hætti og eru allar í skilum og ekkert frekar um það að segja.“

- En nú virðast menn vera búnir að gefast upp fyrir því að stoppa þetta með einhverjum hætti. Hefur þú skoðun á því?

,,Þessi gögn eru mörg hver opinber og í tilviki Umtaks þá liggja ársreikningar félagsins frammi hjá Hlutahafaskrá og það getur hver sem er pantað þann ársreikning og lesið sér til. Þar stendur þetta allt saman þannig að myndin er nú kannski í öllum tilvikum til staðar hvort sem er. Það eru auðvitað helst lánveitingar til erlendra félaga sem hafa ekki áður verið upplýsanlegar hér innlanlands og við hljótum auðvitað að harma það að það er búið að draga inn í þetta fjölda stórra fyrirtækja um alla Evrópu sem voru í viðskiptum við þessa banka. Ég held að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að þeir leiti eftir viðskiptum við íslenska banka í framtíðinni.“