Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital, segist telja að óheppilegt sé að talsmenn Seðlabankans tjái sig á óskipulegan hátt hver í sínu horni, á milli vaxtaákvörðunarfunda.

„Það ætti að vera til skipulögð tjáningardagskrá og reglur um það hver megi tjá sig fyrir hönd bankans og af hvaða tilefni. Þannig er framkvæmdin hjá seðlabönkum víðast hvar annars staðar,“ segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann vill ekki tjá sig efnislega um viðtalið við seðlabankastjóra í Børsen, enda hafi hann ekki séð það í heild.

„Seðlabankinn ætti fyrst og fremst að tjá sig í Peningamálum bankans, í kringum skipulagða vaxtaákvörðunarfundi eða á einhverjum fyrirfram ákveðnum tímum þar sem hann getur tjáð sig um þau málefni sem að honum snúa. Að mínu mati er það óheppilegt að t.a.m. aðalhagfræðingur birti blaðagrein tveimur dögum fyrir vaxtaákvörðun, eða að seðlabankastjórarnir séu að tjá sig hver í sínu lagi við hina og þessa,“ segir Þorvaldur Lúðvík.