Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka, hefur þrátt fyrir ungan aldur komið víða við og býr hún yfir víðtækri reynslu úr viðskiptalífinu. Haustið 2008 hóf Kristrún nám í hagfræði við Háskóla Íslands, um svipað leyti og efnahagshrunið skall á fullum þunga á landsmenn. Litlu munaði þó að Kristrún fetaði á aðrar slóðir.

„Ég var mikið í tónlist á mínum yngri árum og kláraði píanónám meðfram stúdentsprófi. Ég hafði því jafnvel hugsað mér að taka mér árs námspásu eftir útskrift úr MR, til þess að einbeita mér að tónlistinni. Að lokum endaði ég þó á að skrá mig í Háskóla Íslands. Ég skráði mig fyrst í stjórnmálafræði, en svo á síðustu stundu fékk ég bakþanka og ákvað að skipta yfir í hagfræðina. Ég hafði ekki hugsað mikið út í feril í efnahagsmálum og þekkti lítið til í geiranum. Því var auðvitað sérstakt að komast inn í umræðuna á sama tíma og fréttir bárust af vandræðum í efnahagslífinu. Það var mjög áhugavert að vera í faginu á þessum tíma og tengingin við námið varð strax mjög virk," segir Kristrún.

Ráðin til Seðlabankans af núverandi ráðherra

Kristrún lauk náminu í hagfræði á þremur árum en samhliða því starfaði hún hjá Seðlabanka Íslands.

„Ég var svo heppin að vera ráðin upp í Seðlabanka Íslands vorið 2009, en Lilja Alfreðsdóttir, núverandi mennta- og menningarmálaráðherra, réð mig til starfa. Þar starfaði ég á sviði sem heldur utan um alþjóðleg samskipti Seðlabankans og á þessum tíma fól það í sér að vera í miklum samskiptum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS). Þetta var fyrst og fremst frábær lærlingsstaða fyrir mig og ómetanleg reynsla. Þetta var mjög skemmtilegt starf og gerði það að verkum að ég varð mjög áhugasöm í náminu. Ég fékk aldrei þennan skólaleiða sem sumir fengu og varð uppfull af metnaði snemma í náminu," segir hún.

Vorið 2011 útskrifaðist Kristrún með B.Sc. gráðu í hagfræði og hóf svo um sumarið störf í greiningardeild Arion banka.

„Ég fékk strax mjög áhugaverð verkefni en fljótlega eftir að ég hóf störf þá var ég fengin til að gera úttekt á áhrifum fiskveiðifrumvarpsins sem var í gangi þá. Þetta varð nokkuð umdeilt mál og allar greiningar í tengslum við það vöktu þó nokkra athygli. Ég fékk því þarna mjög stórt tækifæri, aðeins 23 ára gömul, nýútskrifuð og nær reynslulaus.

Ég átti í mörgum áhugaverðum samskiptum í sambandi við þessar úttektir og þurfti að takast á við alls konar gagnrýni í tengslum við útgáfu á hinu og þessu efni sem við gáfum út vegna fiskveiðifrumvarpsins. Að lokum gekk þetta mjög vel og var í raun mikil eldskírn fyrir mig á þessum tíma. Ég fékk mjög mikið út úr þessu eina og hálfa ári sem ég vann í greiningardeildinni."

Haldið til Bandaríkjanna í nám

Haustið 2012 hélt Kristrún svo á vit ævintýranna og flutti ásamt eiginmanni sínum til Bandaríkjanna, þar sem hún hóf doktorsnám við Boston háskóla.

„Ég stefndi upphaflega á það að klára doktorsgráðuna og fór þarna inn í fimm ára nám. Fyrsta árið í náminu var virkilega krefjandi og ég lærði heilmikið. En ég fann þó fljótt að þetta var ekki það sem mig langaði að gera á þessum tímapunkti, þó ég hafi talið mig tilbúna. Ég sá fyrir mér að ég yrði í mjög fræðilegu námi í langan tíma og var fyrsta árið í frekar litlum tengslum við efnahagslega umræðu. Ég átti erfitt með þá tilhugsun að loka mig af í þessum heimi, þegar mikil gerjun var í efnahagsmálum og alþjóðapólitík á „praktíska" sviðinu. Ég áttaði mig á því að ég vildi ekki sérhæfa mig of mikið strax enda með breitt áhugasvið. Því tók ég þá ákvörðun eftir fyrsta árið, en ég fékk meistaragráðu að því loknu, að segja skilið við doktorsnámið.

Eftir á að hyggja er þetta ein besta ákvörðun sem ég hef tekið, þar sem ég er búin að gera svo ótrúlega margt á þeim tíma sem ég hefði annars verið í doktorsnáminu. Maður lærir auðvitað gríðarlega mikið í slíku námi og ég hef alls ekki sagt skilið við það að klára doktorsgráðuna síðar, á öðrum forsendum. En á þessum tíma var ég ung og upptekin af því sem var að gerast í kringum mig. Mér fannst þetta því ekki rétti vettvangurinn fyrir mig og og því ágætis tímapunktur til bregða af leið frá fyrri plönum. Þetta var þó alls ekki auðveld ákvörðun," segir Kristrún.

Greinin birtist í tímariti Frjálsrar verslunar um fólk á uppleið í atvinnulífinu. Hægt er að kaupa tölublaðið hér eða gerast áskrifandi að Frjálsri verslun hér.