*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 27. nóvember 2021 12:49

Óhrædd við að sýna undir „húddið“

Forstjóri Marel segir félagið óhrætt við að sýna undir „húddið“ þar sem það leggi allt kapp á að koma fyrst fram með nýjar lausnir.

Sveinn Ólafur Melsted
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel.
Aðsend mynd

Marel ákvað að taka nýja nálgun á fjárfestadaga (e. Capital markets day) þetta árið. Í stað hefðbundins fjárfestadags með þéttri dagskrá fyrirlesara yfir heilan dag, er boðið upp á styttri rafræna fundi og hlaðvörp sem er raðað eftir lykilþemum í stefnu og starfsemi félagsins. Meðal annars hvernig vöxtur félagsins er drifinn áfram af alþjóðlegu sölu- og þjónustuneti, stafrænum lausnum og sjálfbærni. Þannig nálgast Marel fjárfestadaga með sama hætti og fyrirtækið beitir hugviti og þekkingu í vöruþróun fyrir breyttar markaðsaðstæður og breytta neytendahegðun.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, segir að markmið fjárfestadaganna sé að gefa fjárfestum og öðrum áhugasömum innsýn í starfsemi félagsins og hvað fari fram bakvið tjöldin, þannig að þau fái 360 gráðu sýn af starfsemi Marel. Viðburðaserían sé dæmi um stutta og hnitmiðaða fundi þar sem fjárfestar um heim allan geti fengið einstaka innsýn í starfsemi Marel, hitt breiðari hóp starfsmanna og heyrt frá viðskiptavinum á tímum ferðatakmarkana.

„Með þessu vildum við einnig varpa ljósi á fleiri einstaklinga sem gegna stjórnunarstöðum innan Marel en mig og Lindu, sem höfum staðið í stafni á afkomufundum félagsins. Mörg félög ákveða að hafa fjárfestakynningar lokaðar, t.d. vegna þess að þau eru hrædd við að gefa keppinautum sínum innsýn í starfsemi sína og rekstur. Okkur er hins vegar alveg sama þó að viðskiptavinir, fjárfestar, keppinautar og í raun hver sem er sjái undir „húddið" hjá okkur, því við leggjum allt kapp á að vera leiðandi afl sem kemur fyrst fram með nýjar lausnir, nýja hugsun og nýja sjálfbæra framtíð fyrir okkur öll."

Fyrir tveimur vikum var annar hluti 360 gráðu viðburðaseríunnar haldinn, þar sem Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, Linda Jónsdóttir fjármálastjóri og Árni Sigurðsson, framkvæmdastjóri stefnumótunar og stefnumarkandi rekstrareininga, fóru yfir vaxtarmarkmið og viðskiptaáætlun félagsins og útskýrðu hvers vegna metnaðarfullt markmið félagsins um 12% meðaltekjuvöxt á ársgrundvelli á tímabilinu 2017-2026 muni nást, þrátt fyrir ýmsar ytri áskoranir. Til þess að setja markmiðið í samhengi þá námu tekjur Marel á síðasta ári ríflega 1,2 milljörðum evra en ef vaxtarmarkmið félagsins næst munu tekjur ársins 2026 nema 3 milljörðum evra.

Kraftarnir þrír

Árni Oddur nefnir þrjá þætti, eða það sem hann kallar kraftana þrjá, sem munu leika lykilhlutverk í vexti Marel: skortur á vinnuafli, sveiflur í markaðsdreifileiðum á matvælum og sjálfbærni. „Í samtölum mínum við stjórnendur okkar stærstu viðskiptavina hafa sömu þrír þættirnir komið til umræðu síendurtekið," segir hann og útskýrir nánar:

„Sá fyrsti er skortur á vinnuafli. Laun verkamanna hafa hækkað verulega undanfarið og veltuhraði starfsfólks sömuleiðis aukist. Þetta er mikil áskorun fyrir okkar viðskiptavini en tækifæri fyrir okkur þar sem lausn vandamálsins felst í sjálfvirknivæðingu.

Annar drifkraftur er þessi mikla sveifla í markaðsdreifileiðum á matvælum sem hefur átt sér stað upp á síðkastið. Sem dæmi var það þannig fyrir 40 árum í Bandaríkjunum að í 70% tilfella borðaði fólk heima hjá sér, en fyrir Covid-19 var staðan búin að snúast við og 30% máltíða voru heimagerð. Eftir að faraldurinn skall á eru hlutföllin milli heimatilbúinna máltíða og aðkeyptra u.þ.b. jöfn. Netverslun með mat hefur aukist verulega og það sem gerist bakvið tjöldin er að verið er að sjálfvirknivæða öll stig matvælavinnslu. Það kallar á mun fjölbreyttari aðferðir við að setja matinn saman. Þegar pantaður er matur í gegnum netið vill fólk ganga að sömu gæðum, stærð og lögun og að matvælin innihaldi engin bein né plastagnir. Þetta kallar á mjög mikinn sveigjanleika og þar koma lausnir okkar sterkar til leiks."

Þriðji krafturinn sé svo sjálfbærni. „Margir af viðskiptavinum okkar hafa, eins og Marel, lofað því að vera orðin kolefnishlutlaus árið 2040. Til að ná því þurfa fyrirtæki að mæla það sem þau eru að gera og það er ekki hægt án stafrænna lausna. Með sjálfvirknivæðingarlausnum Marel eru því þrjár flugur - þessir þrír kraftar - slegnar í einu höggi. Við tæklum vinnuaflsskortinn með sjálfvirknivæðingu og í krafti tvö leikur sveigjanleiki lausna okkar lykilhlutverk. Loks geta fyrirtæki ekki mælt það sem þau eru að gera nema með stafrænum lausnum en nákvæmar mælingar eru grundvöllur þess að geta tryggt rekjanleika og öryggi matvæla, og gert matvælaframleiðslu sjálfbærari meðal annars með því að draga úr orku- og vatnsnotkun og samtímis auka enn frekar nýtingarhlutfall á verðmætu hráefni."

Nánar er rætt við Árna Odd í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.