Það er óhætt að segja að ný markaðsstefna Íslandsbanka hafi fengið meiri umræðu en gengur og gerist um slík plögg. Á Alþingi í morgun sagði formaður Miðflokksins, þingmaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, stefnuna óhugnanlega þar sem banki í eigu hins opinbera nýtti afl sitt í þvingunarskyni og refsa þeim fjárhagslega sem ekki fylgdu stefnu bankans.

Áhyggjur Sigmundar má rekja til greinar eftir Eddu Hermannsdóttur, markaðs- og samskiptastjóri Íslandsbanka, um nýja stefnu bankans þar sem “umhverfismál líkt og jafnréttismál að vera málefni sem eru rædd eins og hver önnur viðskipti inni á borði framkvæmdastjórnar,“ skrifar Edda og bætir við að þessi mál verði „rætt á hverjum degi við hverja ákvörðun og það má spyrja allra óþægilegu spurninganna.“

Það er hvernig bankinn hyggst framfylgja stefnunni sem vakið hefur athygli

„...við forðumst að kaupa þjónustu af fyrirtækjum sem fylla herbergið aðeins af karlmönnum, við prentum ekki skýrslur og við kveðjum auglýsingar hjá fjölmiðlum sem bjóða upp á afgerandi kynjahalla,“ skrifar Edda Hermannsdóttir.

Edda er innt eftir frekar skýringum á stefnunni í frétt á Vísi þar sem hún er spurð hvort bankinn vilji skera upp herör gegn plasti og karlmönnum.

„Í grófum dráttum. En, nei. Bankinn tók upp fjögur heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem hann er að vinna eftir. Og núna erum við að sýna það í verki hvernig við ætlum að gera það. Lítil skref í þessa átt,“ segir Edda í samtali við blaðamann Vísi, sem spyr síðar hvort þetta séu þá einhvers konar „viðskiptaþvinganir eða boycott“.

„Ef menn vilja orða það svo. En bankinn er bara fyrirtæki sem vill stunda viðskipti við þá sem stunda góða viðskiptahætti.“

Sigmundur Davíð bar markaðsstefnu Íslandsbanka undir Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra sem í endursögn á frétt Rúv sagði  gott og blessað að setja jafnréttismál á oddinn en það væri spurning hvar mörkin lægju.

Edda Hermannsdóttir útlistaði stefnuna í betur í viðtali við fréttastofu Rúv þar sem hún segir að bankinn ætli ekki að skipta sér af rekstri eða efnistökum fjölmiðla þótt fyrirtækið ætli í framtíðinni að ákveða auglýsingakaup með hliðsjón af kynjahalla í fjölmiðlum.

Markaðsstefnan var til umræðu á Facebook-veggjum víða í dag. Elliði Vignisson, fyrrum bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir jákvætt að barist sé fyrir jafnrétti. „en það útspil Íslandsbanka að líkja kynjahalla á fjölmiðlum við þá vá sem fólgin er í plasti í umhverfi eru umhugsunarverð. Sérstaklega af því að...

"samkvæmt Samfélagsskýrslu Íslandsbanka frá árinu 2016 voru konur 64% af starfsmönnum Íslandsbanka. Á landsbyggðinni voru konur 74% af starfsmönnum bankans.",“ skrifar Elliði.

Hins vegar fögnuðu þingmennirnir Halla Signý Kristjánsdóttir og Albertína Friðbjörg Elíasdóttir framtaki bankans við að leiðrétta kynjahalla í fjölmiðlum.