Viðskiptablaðið hefur valið Óðinn sem pistlahöfund ársins hjá blaðinu. Óðinn hefur skrifað með reglulegum hætti í Viðskiptablaðið nánast frá byrjun en blaðið hóf göngu sína árið 1994. Pistlar Óðins hafa vakið athygli í gegnum tíðina enda segir í umsögn dómnefndar að Óðinn sé ötull könnuður og rannsakandi og horfi dýpra í ársreikninga fyrirtækja en aðrir fréttaskýrendur.

,,Auðvitað gæti þetta virst dálítið sjálfhvert fyrir fjölmiðil að velja einn úr sínum röðum en eftir að við sáum að Ríkisútvarpið reið á vaðið þá settum við samskonar dómnefnd i málið. Ég á von á því að allir fjölmiðlar fylgi í kjölfarið og velji duglegasta blaðamann ársins eða jafnvel þann skemmtilegasta. Hjá okkur var valið mjög erfitt," sagði Sigurður Már Jónsson ritstjóri Viðskiptablaðsins.

Sigurður Már sagði að vissulega væri oft erfitt að hafa jafn gagnrýnan hugsuð og Óðinn í vinnu en á móti kæmi að hann væri ekki mjög hátt launaður. ,,Það er algengt að kvartað sé yfir skrifum Óðins og sérstaklega eru það bankastjórar sem hafa horn í síðu hans. Við stöndum hins vegar með okkar manni."

Í umsögn dómnefndar segir: Íslendingar eru óvenju ráðvillt þjóð. Þeir eru óvissir um stöðu sína og framtíð og spyrja sig stöðugt áleitinna spurninga, sem aðeins góðir pistlahöfundar eins og Óðinn geta svara. Hvers vegna fór svona? Hver er  staða okkar? Hvað bíður okkar? Erum við svona blök? Hver átti að vara við og af hverju var enginn að hlusta? Hægt og bítandi fáum við skýrari mynd af þessum heimi sem hrundi. Þökk sé könnuðum og rannsakendum, þeim sem láta sér ekki duga einhvern hræring upplýsinga og blaðurs, slúðurs og áróðurs. Þörf er fyrir klassíska blaðamennsku, vönduð og heiðarleg vinnubrögð, einurð og djörfung. Þjóðin þarfnast fólks sem nennir að afla upplýsinga, grafast fyrir um mál sem flestum eru hulin og setur niðurstöður fram á aðgengilegan hátt. Þörf er á fólki eins og pistlahöfundi  ársins 2009. Lengi lifi Óðinn!