Verð á Brent hráolíu er nú komði niðurfyrir 35 Bandaríkjadali á tunnu, en það stendur nú í 34,83 og hefur lækkað um 2% það sem af er degi. Olíuverð hefur ekki verið lægra síðan árið 2004.

Sádí-Arabía og fleiri lönd hafa slitið stjórnmálasambandi við Íran vegna árásar íranska borgara á sendiráð Sáda í Tehran um helgina. Þessi spenna í samskiptum olíuframleiðsluríkjanna virðist ekki hafa haft þau áhrif að olíuverð hækki. Þessi deila er talin draga úr möguleikanum á því að OPEC samþykki að takmarka framleiðslu á olíu. Íran hefur lýst því yfir að þeir vilji takmarka framleiðslu til að hækka olíuverð en Sádí-Arabía hefur barist fyrir því að framleiðslan verði ekki minnkuð. Sádí Arabía er stærsta landið innan OPEC og hafa þeir hingað til náð sínu fram.

Olíuverð hefur lækkað mikið undanfarið, en í júlí 2014 var verð á Brent hráolíu um 115 dalir á tunnuna. Verðið hefur því lækkað um tvo þriðju á einu og hálfu ári.