Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir það áhyggjuefni hversu mikill skortur er á iðn- og tæknimenntuðu fólki hér á landi og sagði áhrifin á íslenskan iðnað af þeim sökum geta orðið mjög skaðleg. Íslendingar væru með eitt dýrasta menntakerfi í heimi en þörf væri á að auka skilvirkni í því. Kom þetta fram í máli hans á fundi um menntun og nýsköpun í Háskólanum í Reykjavík í gær.

Svana Helen Björnsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins kallaði jafnframt eftir umræðu um menntamál í kosningabaráttunni. Hreggviður Jónsson, formaður Samtaka iðnaðarins tók í sama streng og sagði þurfa skýra stefnu varðandi háskólamenntun á Íslandi.

Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, sagði að næstu ár verði gríðarlega mikilvæg. . Mestu máli skipti að líta á háskólamenntun sem fjárfestingu. Finnar hefðu farið þá leið eftir sína kreppu að auka framlög til menntunar í stað þess að skera niður og hefði sú tilhögun reynst þeim afar vel. Minnti hann á það sem Esko Aho sagði á Viðskiptaþingi í ár að grunnur endurreisnar Finnlands eftir kreppuna á tíunda áratugnum hefði verið sá að þeir skáru ekki niður í háskólum og rannsóknum, heldur juku heldur framlög til þessara málaflokka.

Hann sagði að það væri líka ójafnvægi milli þarfa atvinnulífsins og menntakerfisins. „Við sjáum þetta í þeirri staðreynd að með atvinnuleysi í hámarki á undanförnum árum hefur atvinnulífið samhliða búið við sáran skort á menntuðu starfsfólki á ákveðnum sviðum. Við sjáum þetta í því að 2010 eru aðeins 9% háskólanema á Íslandi í verkfræði og skyldum greinum, á meðan meðaltal Norðurlanda er 16%, en mannauður með menntun í tæknifögum er forsenda hátækniiðnaðar og þekkingariðnaðar.“

Meðal mála sem voru helst rædd á fundinum var nauðsyn þess að stórefla samtal og samvinnu háskóla og atvinnulífs. Voru fulltrúar allra flokka sammála því. Auk þess voru ræddar hugmyndir um styttingu á þeim árafjölda sem tekur ungmenni hér á landi að útskrifast með stúdentspróf og voru allir á sama máli um að skoða þann möguleika af alvöru. Jafnframt voru fjölbreyttari kennsluaðferðir nefndar og aðgerðir til að stemma stigu við brottfalli nemenda á framhaldsskólastigi.

Ræddir voru möguleikar til hagræðingar með endurskoðun á yfribyggingu háskóla en allir fulltrúar stjórnamálaflokka á fundinum sögðu það samfélaginu í hag að fækka þeim ekki.