Guðbrandur Sigurðsson, forstjóri nýskráða félagsins Heimavalla, segir að ákveðið ójafnvægi sé ríkjandi á fasteignamarkaði.

"Þarf að auka framboð á íbúðum verulega, sumir hafa nefnt að byggja þurfi 4.000 til 5.000 íbúðir til að ná jafnvægi og ég tek undir það. Ef við horfum á tölur er samt nokkur skortur á markaðnum." segir Guðbrandur.

Hann segir að tölur frá Samtökum Iðnaðarins gefi til kynna að í ár verði byggðar 2.000 íbúðir, sami fjöldi á því næsta og 2.700 árið 2020. Hann vonast til þess að sveitarstjórnarmeirihlutar um allt land muni auka lóðaframboð verulega til að bregðast við þessari miklu vöntun. Í talnaefni frá Samtökum iðnaðarins kemur jafnframt fram að þó svo uppbygging hjá sveitarfélögunum hafi verið mikil frá 2012 sé það lítið í uppsafnaða þörf. Í kynningu sem Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, hélt á fundi um íbúðamarkaðinn í apríl síðast liðnum kemur fram að þörf sé á 45.000 íbúðum fyrir árið 2040.

"Ég held að það verði ákveðið ójafnvægi á fasteignamarkaði næstu 2-4 ár" segir Guðbrandur.

Heimavellir vilja hagkvæmari íbúðir

Leigufélagið Heimavellir var skráð á markað þann 24. maí síðastliðnn. Töluverðar sveiflur hafa verið á verðinu á hlutabréfum félagsins síðan þá en fyrsta daginn lækkaði verðið um 11%. Næsta dag lækkaði það um 3,5% en þriðja daginn rauk verðið upp um 7,5% og síðan þá hefur verðið sveiflast. Velta með hlutabréf í Heimavöllum fyrstu vikuna nam 1,2 milljörðum króna.

Á fyrsta ársfjórðung ársins högnuðust Heimavellir um 99 milljónir króna. En það er rúmlega níföldun frá sama tíma í fyrra þegar hagnaðurinn nam 11,7 milljónum króna.

"Félagið hefur nú skilað fyrsta ársfjórðungi og í honum kemur fram að við erum á áætlun. Hlutafjárgengið er náttúrulega mjög lágt, 30% undir bókfærðu verði, sem mér finnst vera mjög lágt." segir Guðbrandur.

"Það er til góðs ef markaðurinn er að ná ákveðnu jafnvægi. Það er alveg ljóst að fasteignaverð í sumum hverfum í Reykjavík er það hátt að ekki er hægt að það er ekki hægt að reka leigufélag á þeim forsendum."

Heimavellir hafa hingað til ekki fjárfest í eignum miðsvæðis og hefur á sínum snærum eignir í útjaðri höfuðborgarmarkanna. Aðallega í Mosfellsbæ og Hafnarfirði. Félagið hyggst bæta við eignasafn sitt einni eign miðsvæðis sem staðsett er í Jaðarleiti. Er það fyrsta skref félagsins til að staðsetja sig nær miðju borgarinnar.

"Eins og kom fram í skráningarlýsingunni okkar erum að vinna í endurskipulagningu á eignasafninu. Við erum að selja út úr safninu óhagkvæmar einingar og kaupum hagkvæmari inn í staðinn. Við höfum stefnt á það að bæta við leiguíbúðum sem eru meira miðsvæðis." bætir Guðbrandur við.

Fasteignaverð og leiguverð náð jafnvægi

Samkvæmt tölum Hagstofunnar hefur íbúðaverð hækkuð um 7% undanfarna 12 mánuði. Líkt og Viðskiptablaðið greindi nýverið frá. Því hefur dregið aðeins úr þeim hækkunum sem hafa átt sér stað undanfarið. Hækkun íbúðaverðs náði hámarki síðastliðið sumar þegar hún varð ríflega 24%.

"Ef maður horfir á það sem hefur gerst áður höfum við séð að fasteignaverð hefur verið að hækka hlutfallslega meira en leiguverð en ég tel að bæði fasteignaverð og leiguverð sé að ná ákveðnu jafnvægi." segir Guðbrandur.

Hann segir jafnframt að þó fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu sé að ná jafnvægi þá er fasteignaverð á landsbyggðinni að hækka og nefnir í því samhengi Suðurnesin og á Akureyri.