Félag rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði (FRÍSK) lét Capacent skrifa skýrslu um stöðu kvikmyndaiðnaðarins á Íslandi árið 2014. Í skýrslunni er fjallað um veltu kvikmyndaiðnaðarins og stöðu hans varðandi skattgreiðslur og ríkisstuðning. Meðal annars segir í skýrslunni að sala á DVD og andvirði seldra bíómiða hafi dregist saman á síðustu árum.

Hallgrímur Kristinsson, stjórnarformaður FRÍSK, telur að meðal annarra þátta sé samkeppnisgrundvöllurinn sem íslenskir rétthafar og myndbirtingaraðilar þurfa að keppa við Netflix á sé ósanngjarn, og skattheimtu ríkisins í þessum efnum þurfi að breyta. Fleiri áhrifaþættir eru þó reifaðir í skýrslu Capacent.

Virðisaukaskattur og talsetningarskylda

„Virðisaukaskattur á DVD, bíómiða og Video On Demand (VOD) myndveituþjónustu er 24%, meðan skattur á bækur og tónlist er í skattþrepi 11% virðisaukaskatts,“ segir Hallgrímur, en hann telur skattlagninguna hafa neikvæð áhrif á sölu og aðsókn íslenskra neytenda.

Þó er að mati Hallgríms og FRÍSK stærri og mikilvægari þátturinn í þessum samdrætti hin ósanngjarna staða sem myndveitan Netflix hefur hérlendis. Þótt Netflix sé nú í boði fyrir neytendur á löglegan hátt borgar fyrirtækið þó engan virðisaukaskatt af seldri þjónustu sinni, þar eð ríkisskattstjóri innheimtir ekki skattinn af þeim.

„Netflix borgar ekki krónu í virðisaukaskatt. Hins vegar greiðir íslenski kvikmyndaiðnaðurinn um 12 milljarða króna til ríkissjóðs,“ segir Hallgrímur. „Auk þess þarf Netflix ekki að talsetja eða texta efni sitt, en íslenskir rétthafar og birtingaraðilar verða að gera slíkt. Það kostar iðnaðinn um 300 milljónir króna árlega að lágmarki að ógleymdum kostnaði við kvikmyndaskoðun.“

Netflix ekki lengur grár markaður

Áður var þjónusta Netflix kölluð „grá“, en liturinn er notaður sem e.k. lýsing á því millibili sem myndast þegar Íslendingar notfæra sér þjónustuna gegnum Virtual personal network (VPN) þjónustu og fela staðsetningu sína. Þannig er brotið á rétti íslenskra rétthafa til myndbirtingar á efni sem þeir hafa einkarétt á að birta.

Nú þegar þessu hefur verið breytt og íslenskur aðgangur að Netflix verið opnaður - í samvinnu við íslenska rétthafa, til að tryggja að ekki sé brotið á einkasýningarrétti neins - býðst Íslendingum að kaupa þjónustuna beint og á sanngjarnan máta. Þó eru aðstæður skattlagningar séu Netflix í hag. Ekki er þó alls víst hversu margir hafa skipt úr þessum VPN-krókaleiðum til þess að nota hið íslenska Netflix. Því er einhver prósenta viðskiptavina þjónustunnar sem skiptir enn við fyrirtækið á þessa gráa markaði.

„Til að jafna þennan ójafna samkeppnisgrundvöll út ætti að lækka virðisaukaskattsgreiðslu íslenskrar útgáfu og rétthafa úr 24% niður í 11% auk þess sem tryggja ætti að fyrirtækin erlendu borgi virðisaukaskatt af sinni þjónustu. Þetta snýr að Ríkisskattstjóra. Íslenska ríkið verður af 200-265 milljónum íslenskra króna á ári vegna þess að Netflix borgar ekki virðisaukaskatt.“