Stærri gjaldeyrisvarasjóður hefur verið mál málanna um allnokkurt skeið hér á landi - í það minnsta í þeim afkimum þjóðfélagsins sem Óðinn heldur til í. Gefið hefur verið til kynna að unnið sé að lausn málsins, en biðin eftir aðgerðum í stað orða er farin að taka nokkuð á.

Það hve dregist hefur að útvega gjaldeyri er ekki til þess fallið að auka trú manna á íslenska hagkerfið. Að tilkynna um vinnu við að efla gjaldeyrisvarasjóðinn og láta svo margar vikur líða án þess að nokkur árangur náist er ekki það sem Ísland þarf helst á að halda í þeirri fjármálakreppu sem nú ríður yfir heimsbyggðina.

***

Um þetta geta allir verið sammála og vafalaust líka stjórnvöld, sem eru sá aðili sem mesta ábyrgð ber á að hafa ýtt undir þær væntingar sem nú eru áhöld um hvort hafi verið raunsæjar.

Á það hefur að vísu verið bent, og einn af bankastjórum landsins lagði á þetta áherslu um daginn við Óðin, að lántakan sem um ræðir sé flóknari en svo að tíminn sem hún hafi tekið geti talist vera óeðlilega langur. Þetta má vera, en þá er Óðinn þó þeirrar skoðunar að stjórnvöld hefðu átt að segja sem minnst þar til málið var í höfn.

***

En á töfunum kunna svo sem líka að vera ýmsar aðrar skýringar en sú að lántakan sé flókin og viðamikil. Ein þeirra kenninga sem Óðinn hefur heyrt um þetta er að þegar stjórnvöld gáfu til kynna að verið væri að vinna að málunum hafi þau í raun verið komin mjög langt. Viðræður hafi verið við Englandsbanka og stutt talið vera í samkomulag.

Síðan hafi það gerst að þrýstingur hafi komið frá þarlendum lánastofnunum um að Englandsbanki mundi ekki gera slíkt samkomulag. Sögunni fylgdi að ástæðan væri sú að íslensku bankarnir hefðu haldið vöxtum háum á innlánamarkaði í Bretlandi og að með því að aðstoða Seðlabanka Íslands væri Englandsbanki í raun að auðvelda íslensku bönkunum að undirbjóða þá bresku á markaði fyrir innlán.

***

Hvað sem slíkum kenningum líður eða sannleiksgildi allra þeirra sögusagna sem svífa um á markaðnum er ljóst að Óðinn vonast til að biðinni ljúki brátt og að Seðlabankanum takist að taka myndarlegt lán. Hann hefur að vísu grun um að lánið verði alls ekki af þeirri stærðargráðu sem sumir hafa nefnt – allt upp í tíu milljarða evra – en það verður vonandi nægilega stórt til að hafa einhver áhrif.

***

Þegar – eða ef – lánið liggur fyrir má svo búast við að umræðan um það hver eigi að greiða vextina af því verði háværari.

Að vísu þarf einungis að greiða vaxtamun á íslensku kjörunum og erlendum ríkisskuldabréfum, enda má gera ráð fyrir að Seðlabankinn geymi fjármunina í slíkum bréfum, en engu að síður verður kostnaðurinn töluverður.

***

Sumir hafa haldið því fram að íslenskir bankar eigi að borga þennan kostnað, en Óðinn fær hvorki séð hvernig á að framkvæma slíkt né hvers vegna bankarnir ættu að greiða kostnaðinn.

Íslenska ríkið heldur úti gjaldmiðli og hefur í það minnsta hingað til skikkað íslenskar fjármálastofnanir til að nota þennan gjaldmiðil. Óðinn er þeirrar skoðunar að ef íslenska ríkið gefur út eigin gjaldmiðil verði það um leið að tryggja að þessi gjaldmiðill sé gjaldgengur í alþjóðlegum viðskiptum. Eðlilegt er að ríkið beri kostnaðinn af því en ekki einstök fyrirtæki, hvorki bankar, heildsalar eða aðrir sem kunna að vilja eiga viðskipti við erlend fyrirtæki.

***

Svo er líka hægt að grípa til töfralausnar til að losna undan umræðunni um það hver eigi að borga kostnaðinn.

Í þessari umræðu hefur meðal annars komið fram sú skoðun –og það frá ábyrgum aðilum – að kostnaðurinn þurfi ekki að vera neinn. Hægt sé að nota fjármunina til að fjárfesta með hagnaði og sleppa þannig alveg við kostnað.

Fyrst þegar Óðinn heyrði þessa hugmynd fékk hann dollaramerki í augun því að hann sá fyrir sér að Íslendingar gætu nú allir sem einn lagt niður störf, látið Seðlabankann taka ofurstórt erlent risalán, lagst svo á meltuna og lifað kóngalífi af hagnaðinum af fjárfestingunum.

***

Þegar bráði af honum var hann kominn á jörðina aftur, þar sem hærri ávöxtun fylgir hærri áhætta og hádegisverðurinn er aldrei ókeypis. En auðvitað var miklu meira gaman í hinum heiminum.