Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri ræddi fjárfestingar á fjármálaþingi Íslandsbanka í gær. Hann sagði heppilegt að ríkið réðist í arðbærar innviðafjárfestingar þar sem vextir eru lágir og ríkissjóður með gott lánshæfi. Mikilvægt sé að nýta tækifærið og líta jafnvel til erlendrar fjármögnunar í því samhengi.

Hvað aðrar fjárfestingar varðar sagði Ásgeir vel heppnað útboð Icelandair ákveðna traustsyfirlýsingu og jákvætt hve margir almennir fjárfestar tóku þátt. „Það sýnir að það eru ekki bara lífeyrissjóðir á þessum markaði,“ sagði Ásgeir sem eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun sagði fólk ekki þurfa að hafa áhyggjur af krónunni, hún væri í góðum höndum.

Hann segir nær allan sparnað í landinu í höndum mjög fárra aðila, lífeyrissjóðanna, og verðbréfamarkaður sem eingöngu sé byggður upp af lífeyrissjóðum sé ekki skemmtilegur þar sem þeir kaupa bréf og halda þeim.

„Okkur vantar fleiri tegundir af fjárfestum á markaðinn, okkur vantar erlenda fjárfesta, vísitölusjóði og að almenningur sé meira að fara inn á markaðinn en verið hefur,“ sagði Ásgeir.

Erfitt sé fyrir lífeyrissjóði að taka að sér að vera kjölfestufjárfestar í félögum og meðal þess sem hugleiða mætti sé að skilja frekar á milli viðbótarlífeyrissparnaðar og samtryggingarlífeyris. Slíkt geti eflt verðbréfamarkað og aukið skoðanaskipti á markaði.

Aðspurður hvort ræða þyrfti nánar um þrýsting af hálfu atvinnurekenda eða verkalýðsleiðtoga um fjárfestingar sjóðanna sagði Ásgeir að fram til þessa hefði ríkt ákveðið heiðursmannasamkomulag um það hvernig sjóðunum hefur verið stjórnað.

„Þetta eru ekki peningar atvinnurekenda eða verkalýðsfélaga, þeir aðilar eiga sína eigin sjóði. Þetta eru peningar sjóðsfélaga enda er skylduaðild að þessum sjóðum. Ég tel að það þurfi að tryggja betur sjálfstæði stjórnarmanna og að ákvarðanir séu teknar inn í sjóðunum með hagsmuni sjóðsfélaga að leiðarljósi. Það er algjörlega markmið fjármálaeftirlits Seðlabankans,“ sagði Ásgeir.

Hægt er að horfa á upptöku af Fjármálaþingi Íslandsbanka HÉR . Umræðan um fjárfestingarnar byrja á 42. mínútu.