„Okkur þykir leitt að þetta skuli vera niðurstaðan. Hún er mjög slæm fyrir þá stofnfjáreigendur sem eru með lán á móti stofnfjárbréfum. Við höfum frestað gjalddögum á þessum lánum vegna þeirrar óvissu sem ríkt hefur í málinu hingað til," segir Már Másson, forstöðumaður samskiptasviðs Íslandsbanka, um þá stöðu sem upp er komin hjá stofnfjáreigendum í Byr sparisjóði.

Þeir hafa nú tapað öllu sínu stofnfé eftir að ríkið yfirtók skuldbindingar Byrs og stofnaði um leið nýtt hlutafélag um reksturinn sem er alfarið í eigu ríkisins.

„Þá tapar Íslandsbanki á þessu þar sem bankinn var í hópi 10 stærstu stofnfjáreigenda Byrs sparisjóðs," segir Már ennfremur.

Að nafnvirði eru lánin sem Glitnir veitti fyrir stofnfjáraukningu í sjóðnum árið 2007, og Íslandsbanki heldur nú á, um 10 milljarðar. Ekki hefur fengist upp gefið nákvæmlega hvernig lánin voru meitin þegar þau voru færð frá Glitni til Íslandsbanka. Ljóst er að þau hafa verið færð niður að umtalsverðu leyti þar sem þau væru annars um 15% af eigin fé bankans miðað við stofnefnahagsreikning.

Þeir sem lánin tóku hjá Glitni, sem eru nálægt 500 talsins, hafa átt í deilum við Íslandsbanka þar sem þeir telja stofnfjárbréfin einungis vera að veði fyrir lánunum. Íslandsbanki hefur hins vegar horft öðruvísi á málið og talið aðrar tryggingar vera að baki lánunum. Líklegt er að leyst verði úr þessu fyrir dómstólum.