Greiðslur nýju bankanna til endurskoðunarfyrirtækja í fyrra eru aðeins þriðjungur þess sem skrifstofurnar þáðu alls frá bönkunum árið 2008. Samkvæmt síðustu ársreikningum bankanna námu þóknanir til endurskoðunarfyrirtækja tæpum 400 milljónum króna fyrir endurskoðun ársreikninga, yfirferð árshlutareikninga og aðra þjónustu árið 2009. Árið 2008 nam endurskoðunarkostnaður bankanna rúmum 1,2 milljörðum króna og 1.164 milljónum árið áður, samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Nýju bankarnir hafa allir skipt um ytri endurskoðendur eftir að bankarnir voru reistir á rústum gömlu bankanna. Af stóru endurskoðunarskrifstofunum er PwC það eina sem starfar ekki fyrir stóru viðskiptabankana en félagið skrifaði bæði upp á reikninga Glitnis og gamla Landsbankans. Ernst Young endurskoðar Arion í dag en KPMG var áður endurskoðendafyrirtæki Kaupþings. KPMG hefur tekið við NBI og Deloitte vottar nú reikninga Íslandsbanka. KPMG endurskoðaði reikninga Straums-Burðaráss og SPRON, sem er fallinn í valinn, auk þess að vera endurskoðandi Stoða (FL Group) og Byrs sparisjóðs.