Hagnaður Straums-Burðarás Fjárfestingabanka eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi árið 2007 er 69,16 milljónir evra eða ríflega 6 milljörðum króna en var 217,51 milljónir evra (19 milljarðar króna) á fyrsta ársfjórðungi árið 2006 en þá seldi bankinn um 21,05% hlut sinn í Glitni, þá Íslandsbanka.

Hreinar rekstrartekjur á fyrsta ársfjórðungi námu 92,52 milljónum evra, en voru 276,02 milljónir evra á sama tímabili árið 2006.

Arðsemi eigin fjár var 4,6% á fyrstu þremur mánuðum ársins sem jafngildir 19,9% arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli. Þessi niðurstaða er í samræmi við áætlanir bankans.

Hlutfall rekstrarkostnaðar af tekjum nam 13,2% á fyrstu þremur mánuðum ársins 2007 en var 8,0% á fyrstu þremur mánuðum ársins 2006. Bankinn mun áfram fjárfesta í uppbyggingu á helstu mörkuðum sínum.

Hreinar þóknunartekjur námu 30,29 milljónum evra á fyrstu þremur mánuðum ársins 2007 samanborið við 26,98 milljónir evra á sama tímabili 2006, sem er um 12% hækkun frá fyrra ári.

Hreinar vaxtatekjur bankans voru 11,16 milljónir evra á fyrstu þremur mánuðum ársins 2007, en voru 5,53 milljónir evra á sama tímabili 2006.

Heildareignir bankans námu 5.191,56 milljónum evra í lok fyrsta ársfjórðungs 2007 en voru 4.357,76 milljónir evra í lok árs 2006 og hafa því vaxið um 19% frá áramótum.

Eiginfjárhlutfall á CAD-grunni var 32,8%, þar af A-hluti 30,3%. Til samanburðar var CAD-hlutfall um áramót 37,59%, þar af var A-hluti 35,2%. Þetta sýnir aukna nýtingu á efnahagsreikningi bankans til frekari vaxtar.

Eigið fé nam 102,18 milljónum evra í lok fyrsta ársfjórðungs, að frádregnum eigin bréfum.


Lánasafnið óx úr 1.352,07 milljónum evra í upphafi árs 2007 í 1.706,90 milljónir evra í lok fyrsta ársfjórðungs, sem er 26% hækkun á milli ára.

Hlutfall vaxtaberandi eigna í efnahagsreikningi hækkar um fjögur prósentustig
frá árinu 2006, úr 59% í 63%.


"Það er okkur mikið gleðiefni að kynna nú í fyrsta sinn afkomu okkar í evrum, sem er mikilvægt skref í átt að því marki að gera Straum-Burðarás að alþjóðlegum fjárfestingabanka. Færslan yfir í evrur hefur gengið að óskum. Við
höldum áfram að auka þóknunartekjur og árangurinn fyrstu þrjá mánuði ársins er í samræmi við stefnu bankans og markmið; stöðugir tekjustraumar og aukin fjölbreytni í starfsemi bankans. Straumur-Burðarás er nú með starfsemi í fjórum löndum. Hafinn er undirbúningur að opnun útibús í Stokkhólmi í Svíþjóð. Lykilstarfsfólk hefur þegar verið ráðið þar og hefur störf á næstu mánuðum. Við ætlum okkur að vaxa af krafti á þessu ári; á Norðurlöndum, Bretlandseyjum og þar sem vænleg tækifæri bjóðast í Evrópu," Friðrik Jóhannsson, forstjóri.