Oktavía Hrund Jóns hóf nýlega störf hjá SecureIT sem ráðgjafi á sviði heildræns net- og upplýsingaöryggis. Oktavía hefur framkvæmt úttektir og veitt ráðgjöf á sviði netöryggis og persónuverndar víða um heim í tvo áratugi. Greint er frá ráðningu hennar í fréttatilkynningu.

Oktavía er með BA gráðu í viðskiptafræði frá viðskiptaháskólanum CBS í Kaupmannahöfn og MA gráðu í alþjóðlegri þróunarfræði og alþjóðlegum samskiptum frá háskólanum í Roskilde í Danmörku. Hún lauk jafnframt ISO 27001 Lead Auditor gráðu árið 2021.

„Oktavía er meðstofnandi VirtualRoad hýsingarfélagsins sem hóf störf 2008 og veitir fjölbreyttum viðskiptavinum vörn gegn DDoS árásum. Oktavía hannaði og stýrði ,,SAFE initiative" undir félaginu IREX, sem býður upp á námskeið og fræðslu í heildrænu öryggi, sem og í framkvæmd áhættumata og viðbragðsáætlana. Oktavía hefur kennt einstaklingum og fyrirtækjum á alþjóðavísu netöryggi síðan 2007 sem og framkvæmt úttektir öryggis með heildrænnri nálgun,“ segir í fréttatilkynningu.

Þá hafi hún stofnað future404 árið 2017 og starfað þar við öryggisráðgjöf, úttektir og innleiðingar á ýmsum stöðlum á sviði upplýsingaöryggis og persónuverndar.

Hjá SecureIT muni Oktavía veita ráðgjöf og vera hluti af öryggisstjóraþjónustu SecureIT auk þess að framkvæma margvíslegar úttektir á sviði netöryggis, persónuverndar og NIS, sinna áhættustjórnun og nýta reynslu sína í að styrkja enn frekar viðbragðs- og neyðarþjónustuteymi (e. Incident response) SecureIT.