Ökuritar eru ennþá of dýrir svo hægt sé að nota þá á einstaklingsmarkaði hér á landi. Útlit er þó fyrir að slíkir ökuritar verði innbyggðir í nýja bíla á næstu tveimur til fjórum árum. The Wall Street Journal birti grein þar sem fram kemur að tryggingafélög í Bandaríkjunum notist nú við ökurita til að ákvarða iðgjald. Ökumaðurinn getur með þessu móti safnað stigum og ef vel gengur lækka iðgjöldin hjá tryggingafélaginu.

Hér á Íslandi eru ökuritar ekki þekktir hjá einstaklingum þótt þeir séu notaðir í bílaflotum fyrirtækja. Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, segir heilmikil tækifæri felast í ökuritum og hvað þeir geti gert. Hinsvegar sé slíkur búnaður ennþá of dýr. „Tækninni fleygir hratt áfram í þessu. Í einhverjum tilvikum sér maður að þetta er að verða staðalbúnaður í bílum. Hingað til hefur hvatinn ekki verið nægur til þess að menn séu tilbúnir að fjárfesta í þessu ennþá en ég sé fyrir mér að þetta sé eitthvað sem muni koma,“ segir Sigrún.