Allt frá árinu 1995 til 2018 hefur ökutækjafloti Íslendinga vaxið um 4% á ári, eða frá 132 þúsund í 309 þúsund. Með ökutækjum er átt við allar bifreiðar og bifhjól sem heimilt er að aka á vegum.

Einhver fækkun var fyrstu tvö árin eftir hrunið en vöxturinn náði sér aftur á strik árið 2015. Hlutur heimilanna er langstærstur eða um 74,3% árið 2016 á móts við 89,6% árið 1995. Þar vegur vöxtur fjölda skráðra bifreiða hjá fyrirtækjum í leigustarfsemi miklan hluta en bílafloti þeirra var um 9,8% af öllum ökutækjum árið 2017.

Heimilin notast mest við bensínbíla

Enn er stærsti hluti ökutækja á heimilum knúinn með bensíni en fjöldi þeirra hefur breyst lítillega frá árinu 2007, en fjöldi þeirra sem knúinn er diesel eða öðru eldsneyti hefur aukist. Hins vegar fór fjöldi dieselknúinna ökutækja hjá fyrirtækjum, öðrum en þeim í leigustarfsemi, fram úr bensínknúnum árið 2007.

Hluti rafknúinna ökutækja og tvinnbíla með hleðslugetu var nær ekki marktækt af heildinni fyrr en árið 2018, en þá voru slík ökutæki orðin 7.445 eða um 2,4% af heildarbílaflotanum. Stærstur hluti þeirra var skráður á heimili en ekki fyrirtæki.

Þrátt fyrir að 74,3% ökutækja séu skráð á heimili nam eldsneytisnotkun þeirra um 58% af heildar eldsneytisnotkun landsins. Þetta stafar að einhverju leiti af því að ökutæki í sumum atvinnugreinum reynast töluvert þyngri en bílafloti heimilanna og eyða þau því meira eldsneyti á hvern ekinn kílómetra.