Flugvélaframleiðandinn Airbus, sem nýlega hefur verið ásakaður um spillingu og brot á öðrum reglum í Bandaríkjunum, Frakklandi, Bretlandi, og Þýskalandi, leitar nú að nýjum forstjóra og framkvæmdastjóra.

Airbus staðfesti í dag að forstjóri félagsins, Tom Enders, myndi ekki framlengja samning framyfir aprílmánuð 2019. Þá liggur einnig fyrir að framkvæmdastjóri reksturs, Fabrice Brégier, er að hætta nú í febrúar.

Airbus er annar stærsti flugvélaframleiðandi í heiminum á eftir Boeing en í síðasta mánuði gerðu frönsk löggæsluyfirvöld húsleit á skrifstofum félagsins í tengslum við rannsókn þeirra á viðskiptum Airbus í Kasakstan.

Til viðbótar eru margir af lykilstarfsmönnum félagsins á útleið, meðal þeirra John Leahy, framkvæmdastjóri sölu.