Eins og greint hefur verið frá í vikunni lækkaði hlutabréfaverð Icelandair Group um 25% á mánudag í kjölfarið á því að félagið sendi frá sér kolsvarta afkomuviðvörun kvöldið áður. Töluverð ókyrrð hefur verið í lofti í kringum rekstur fyrirtækisins síðastliðin rúm tvö ár. Var þetta í annað sinn frá ársbyrjun 2017 sem gengi bréfa félagsins lækkar verulega á einum degi. Þann 1. febrúar 2017 lækkaðu bréf félagsins um tæplega 24% á einum degi í kjölfarið á afkomuviðvörun þar sem kom fram að bókunarstaðafélagsins hafði versnað auk þess sem meðalfargjöld höfðu lækkað.

Markaðsvirði félagsins hefur lækkað um 140 milljarða króna eða um 75%  frá því að það var í hæstu hæðum í lok apríl 2016 þegar það stóð í 38,9 krónum á hlut. Hafði gengi bréfa félagsins þá rúmlega fimmtánfaldast í verði frá því að félagið fór í hlutafjárútboð í lok árs 2010 en útboðið var hluti af fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins sem lauk í febrúar 2011.

Hækkun hlutabréfaverðs á þessum tíma var þó ekki innistæðulaus. Icelandair fór ekki varhluta af því að komum erlendra ferðamanna til Íslands fjölgaði gífurlega á þessum tíma. Í júnímánuði 2013 stóð Icelandair fyrir tæplega 70% af brottförum frá Keflavíkurflugvelli í mánuðinum en til samanburðar nam hlutdeild félagsins 44,7% í lok síðasta júní á þessu ári. Á sama tíma og fjöldi ferðamanna til landsins jókst tók olíuverð einnig að lækka verulega um mitt ár 2014. Frá júlí 2014 til ársloka 2015 lækkaði verð á flugvélabensíni úr um 120 dollurum á tunnuna niður í um 40 dollara sem gerði rekstrarumhverfi flugfélaga mun hagstæðara. Frá árinu 2011 til 2015 jókst hagnaður félagsins úr 36 milljónum dollara í 111 milljónir á sama tíma og tekjur félagsins fóru úr 790 milljónum dollara í 1.140 milljónir.

Kostnaður vaxið hraðar en tekjur

Síðustu tvö ár hafa tekjur félagsins haldið áfram að aukast og námu í fyrra um 1.420 milljónum dollara sem er 24,5% aukning á milli áranna 2015 og 2017. Á sama tíma jókst rekstrarkostnaður hins vegar um 35,8% úr 920 milljónum dollara árið 2015 í 1.249 milljónir árið 2017. Á þessum tveimur árum fór rekstrarkostnaður sem hlutfall af tekjum úr 80,7% í 88%. Sérstaklega hefur launakostnaður félagsins hækkað en hann hækkaði um 58,9% á fyrrgreindu tímabili úr 280 milljónum dollara árið 2015 í 445 milljónir á síðasta ári. Launakostnaður sem hlutfall af tekjum var 31,4% hjá Icelandair í fyrra en til samanburðar var sama hlutfall 20,1% hjá British Airways og 17,4% hjá Lufthansa á árinu 2017. Hærri launakostnaður í dollurum skýrist að miklu leyti af því að gengi íslensku krónunnar gagnvart dollar hefur styrkst töluvert á fyrrgreindu tímabili auk þess sem launaþróun á Íslandi hefur reynst félaginu þungbær en launavísitala Hagstofunnar hækkaði um 27% á tímabilinu.

Þá hefur verð á flugvélabensíni einnig hækkað töluvert á undanförnum misserum. Frá ársbyrjun 2016 hefur olíuverð hækkað úr 40 dollurum á tunnuna í um 90 dollara samkvæmt alþjóðaflugmálastofnuninni IATA. Þess ber þó að geta að samkvæmt áhættustefnu Icelandair Group, ver félagið sig fyrir 40-60% af breytingum í verði á eldsneyti fyrir hvert 9-12 mánaða tímabil með notkun framvirkra samninga. Þrátt fyrir það verður ekki litið fram hjá því að hækkun á olíuverði hefur haft töluverð áhrif á rekstur félagsins.

Mikil samkeppni heldur verði niðri

Á sama tíma og rekstrarkostnaður Icelandair hefur aukist hraðar en tekjur hefur samkeppni á helstu mörkuðum félagsins aukist, bæði á flugleiðum til og frá Íslandi en einnig í flugi yfir Atlantshafið milli Evrópu og Bandaríkjanna. Hefur þetta orðið til þess að meðalfargjöld á flugleiðum félagsins hafa ekki hækkað í samræmi við hækkun olíuverðs. Í þessu samhengi má nefna að Michael O‘Leary , forstjóri írska lágfargjaldaflugfélagsins Ryanair, lét hafa það eftir sér í febrúar síðastliðnum að hann gerði ráð fyrir því að hærra olíuverð myndi ekki byrja að hafa áhrif á flugfargjöld í Evrópu fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári.

Í afkomuviðvörun sem félagið sendi frá sér síðastliðinn sunnudag er þróun á meðalfargjöldum nefnd sem ein af ástæðum þess að félagið lækkaði EBITDAspá sína úr 170-190 milljónum dollara niður í 120-140 milljónir fyrir árið í ár en áætlanir félagsins höfðu gert ráð fyrir því að meðalfargjöld færu hækkandi á síðari hluta þessa árs. Að sögn eins viðmælanda Viðskiptablaðs voru stjórnendur Icelandair Group skýrir á því á síðasta uppgjörsfundi félagsins að þeir ætluðu ekki að elta meðalverð á seinni helmingi þessa árs þar sem þeim hafi þótt þeim of lág og svo virðist sem afkomuviðvörunin leiði það í ljós að það hafi einfaldlega ekki gengið upp.

Icelandair er þó ekki eitt um að vera í vandræðum. Í gær birti WOW air afkomu sína fyrir árið 2017. Kom þar fram að félagið hafði tapað 2,4 milljörðum króna á árinu sem er 6,2 milljarða neikvæður viðsnúningur frá árinu á undan.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .