Lækkun var á hlutabréfamarkaði í Asíu og Eyjaálfu í morgun. Ástæðan er meðal annars rakin til Evrópu en eins og greint hefur verið frá hafa markaðir verið ókyrrir vegna óvissu um niðurstöðu leiðtogafundar ESB í lok vikunnar.

Þá hefur gengi Evrunnar ekki verið lægra í tvær vikur. Tunnuverð á Brent olíu stendur nú í 91 dollara en hráolíuverð hefur fallið lítillega og stendur nú í 79,10 dollurum. Gullverð hefur hækkað og stendur nú í 1,580 dollurum en vegna óvissu í Evrópu og samhliða óvissu á mörkuðum sækja fjárestar í öruggari eignir. Þetta kemur fram á vef fréttaveitunnar Reuters í dag.

Í Tókýó lækkaði Nikkei hlutabréfavísitalan um 0,81% en í Seúl nam lækkunin 0,41%. Í Hong Kong hefur Hagn Seng vísitalan þegar lækkað um 0,50%.