Ólafía B. Rafnsdóttir hefur gefið kost á sér sem formaður VR, en kosningar til formanns verkalýðsfélagsins fara fram á netinu 7. til 15. mars næstkomandi.

Í tilkynningu til fjölmiðla segist Ólafía hafa brennandi áhuga á kjaramálum og réttlátu samfélagi. Hún hafi m.a. unnið á skrifstofu VR í sjö ár frá 1989 til 1996, m.a. sem starfsmaður sjúkrasjóðs, í kjaramáladeild og í bókhaldinu.

Ólafía hefur einnig starfað sem þjónustustjóri Islandia, deildarstjóri innheimtudeildar Tals og hefur sinnt ýmsum stjórnunarstörfum hjá 365 miðlum. Þá hefur hún verið kosningastjóri Ólafs Ragnars Grímssonar í forsetakosningum, kosningastjóri Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þegar hún bauð sig fram til formanns Samfylkingarinnar 2005 og síðast var hún kosningastjóri Árna Páls Árnasonar í formannskosningum Samfylkingarinnar.

Í tilkynningunni segir Ólafía að VR eigi enn nokkuð í land með að ná því þreki og trausti sem félagið hafði fyrir efnahagshrunið haustið 2008. Það þurfi dirfsku og styrk til að snúa vörn í sókn í kjarabaráttu næstu missera.

Enn sem komið er hafa þau Stefán Einar Stefánsson, núverandi formaður, og Ólafía ein gefið kost á sér til formanns VR.