Ólafía I. Þorvaldsdóttir og Rafn Hermannson hafa verið ráðin til Búseta til að stýra fjármálum annars vegar og fasteignaumsjón hins vegar. Ólafía hóf störf um áramótin en Rafn mun hefja störf þann 1. febrúar næstkomandi.

Ólafía hefur verið ráðin í stöðu fjármálastjóra Búseta, en hún hefur undanfarin ár starfað sem forstöðumaður reikningshalds Festi hf. og sem framkvæmdastjóri fjármála hjá Krónunni. Þar áður starfaði hún sem deildarstjóri hjá Landsbankanum og dótturfélögum, og hjá Deloitte þar sem hún stýrði uppgjörs- og endurskoðunarvinnu. Ólafía er viðskiptafræðingur, með cand.oecon gráðu frá Háskóla Íslands.

Rafn tekur við stöðu forstöðumanns fasteignaumsjónar Búseta. Rafn kemur til Búseta frá Póstinum þar sem hann hefur verið forstöðumaður fasteignadeildar. Þar áður stýrði Rafn fasteignaumsjón hjá Leigufélaginu Kletti. Rafn er byggingarfræðingur frá Københavns Erhvervsakademi í Danmörku og löggiltur hönnuður byggingamannvirkja. Þá hefur hann einnig lokið námi í kennslufræði og verkefnastjórnun hjá Endurmenntun Háskóla Íslands.

Góð viðbót við öflugt teymi

„Það er afar ánægjulegt fyrir okkur hjá Búseta að fá Ólafíu og Rafn til starfa. Þau eru góð viðbót við það öfluga teymi sem þegar starfar hjá félaginu og bjóðum við þau hjartanlega velkomin," segir Bjarni Þór Þórólfsson framkvæmdastjóri Búseta í tilkynningu um ráðninguna.

Þá segir að félagið, sem byggi á traustum grunni, hafi vaxið og dafnað á síðustu árum. Bjarni segir að „nýjustu verkefni félagsins við Keilugranda, Skógarveg, Árskóga, Einholt, Þverholt, Bryggjuhverfi og víðar hafa að geyma vel yfir 400 íbúðir."

Fasteignasafn Búseta, sem allt er á höfuðborgarsvæðinu, er því komið yfir 1.100 íbúðir. Bjarni segir „félagsmenn eiga möguleika á að búa í fjölbreyttri flóru fasteigna sem er að finna í öllum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Félagið á mikið af vel staðsettum fasteignum í Reykjavík, m.a. í miðbæ og Vesturbæ. En félagið eigi líka fasteignir í Garðabæ, Mosfellsbæ, Hafnarfirði, Kópavogi og á Seltjarnarnesi."