Það þjónar ekki hagsmunum Íslendinga að ganga í Evrópusambandið. Þetta segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í samtali við rússneska dagblaðið The St. Petersburg Times.

„Þegar fjármálakreppan árið 2008 skall á þá var sú skoðun ríkjandi að ef Ísland hefði verið aðili að Evrípusambandinu þá hefði kreppan ekki orðið okkur eins erfið og hún var,“ sagði Ólafur Ragnar. Þessi rök virkuðu nokkuð sterk til að byrja með en nú höfum við séð hvernig Spánn, Grikkland, Írland og baltnesku ríkin og Frakkland hafa verið í erfiðleikum vegna kreppunnar. Nú erum við í sömu stöðu áður og aðild að Evrópusambandinu þjónar ekki hagsmunum okkar. Meirihluti Íslendinga er á móti því að ganga í Evrópusambandið,“ segir hann.

Ólafur Ragnar kom víða við í viðtalinu og ræddi mikilvægi tengsla Íslands og Rússlands. Hann nefndi til dæmis að góð leið til að ferðast á milli Bandaríkjanna og Rússlands væri með viðkomu á Íslandi. Þá ræddi hann mikilvægi þess að Ísland væri herlaust ríki.