„Það kostar ekki mikið að setja upp vefmiðil. Ég hef viljað fara af stað án þess að vera nokkrum háður. Ég fæ aðstoð frá veflausnafyrirtæki við að setja vefinn upp en annað geri ég sjálfur. Ég verð einn á bak við hann,“ segir hagfræðingurinn og pistlahöfundurinn Ólafur Arnarson sem vinnur að því að koma nýjum vefmiðli í loftið á næstu dögum. Hann heitir Tímarím og vísar til íslensks kveðskapar frá átjándu öld þar sem gagnrýni á yfirvöld var í fyrirrúmi.

„Það er spurning hvort þetta tekst á morgun, á föstudag eða hvort ég þurfi að bíta í það súra epli að gera þetta í næstu viku," segir Ólafur. Hann segir stefnt að því að selja auglýsingar á vefmiðlinum þegar fram í sæki.

Vefmiðillinn er settur upp í WordPress og mun Ólafur sjá um allt utanumhald hans. Stefnt er á að gestapennar riti hugleiðingar sínar um öll heimsins mál þótt skoðanir Ólafs verði í öndvegi. „Þeir þurfa ekki að endilega að vera sammála mér,“ segir hann.

Ólafur hefur um nokkurt skeið skrifað pistla á Pressunni þar sem hann mælir fyrir skuldaafskriftum og gagnrýnt stjórnvöld. Pistlar hans munu í einhvern tíma birtast jafnt á vef Tímaríma og Pressunni.

Langar til að skrifa um mat

Ólafur segir nýjan vefmiðil veita honum aukið frelsi: „Mig langar til að gera meira en skrifa einn pistil á dag og upp í fimm í viku. Þótt ég hafi tamið mér pistlaformið þá hef ég stundum saknað þess að geta ekki skrifað stutta pistla um annað. Með mínum eigin miðli get ég sett fram styttri punkta, valið áhugaverðar fréttir og birt skrif um önnur efni,“ segir Ólafur sem sömuleiðis stefnir á að birta myndskeið á vefnum og viðtöl við fólk.

Menningarumfjöllun fær sitt pláss á vef Ólafs auk bókarýni.

„Svo er ég mikill matmaður, ég hef gaman af góðum mat og góðum vínum og ætla að vera með svoleiðis horn þarna líka," segir Ólafur.