Ólafur Eggertsson bóndi á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum hyggst á næstunni hefja framleiðslu á repjuolíu úr repju sem ræktuð er á Þorvaldseyri. Er hann búinn að panta nauðsynlegan tækjabúnað og reiknar með að fá um eitt til eitt og hálft tonn af olíu úr uppskeru sumarsins.

„Ég á um 5 tonn af repjufræðum og ég reikna með að fá úr þessum um eitt til eitt og hálft tonn af olíu. Uppskeran hjá mér er sambærileg við það sem gerist í Norður-Þýskalandi á hvern hektara. Ég sáði í 2 hektara síðast og uppskerann er fimm tonn af repjufræjum. Í haust sáði ég í 12 hektara og svo er bara að bíða og sjá hvernig til tekst."

Ólafur segist hafa gert tilraunir með útkomuna og úr hverjum 100 kílóum fáist um 40% af repjuolíu. Hratið af framleiðslunni segir hann að geti komið í stað fiskimjöls í fóður handa kúm.

Ólafur segist ekkert smeykur við veðurfarið. Það sýni sig að á hlýrri svæðum á Íslandi eins og undir Eyjafjöllum sé repjuræktun vel möguleg. Þá sé repjan mjög hentug í skiptiræktun á örkum á móti öðrum tegundum.

„Það eru uppi tvær hugmyndir varðandi framleiðslu á olíunni. Annarsvegar er að nota olíuna sem eldsneyti og hins vegar að framleiða matarolíu sem gefur þrefalt meira af sér."

Hann segist vera búinn að sannreyna að hægt er að keyra vélar á repjuolíu, en þó þurfi að gera þurfi ákveðnar breytingar til þess. Siglingastofnun hefur aðstoðað hann við þær tilraunir. Þá hefur hann einnig notið aðstoðar Landbúnaðarháskólans og síðan byggir hann á mikilli reynslu við kornrækt á Þorvaldseyri. Hann segir að framleiðsla á matarolíu sé meira spennandi en eldsneytisolíu og margir hafi þegar sýnt málinu áhuga hérlendis.

„Seinni partinn í vetur verð ég komin með sýnishorn," segir Ólafur