*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 19. janúar 2017 14:27

Ólafur E. aðstoðar Jón

Ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála hefur ráðið sér annan aðstoðarmann.

Ritstjórn

Ólafur E. Jóhannsson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála. Ólafur hefur hafið störf í ráðuneytinu. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins. Jón hefur nú ráðið tvo aðstoðarmenn því á mánudaginn var tilkynnt um ráðningu Vigdísar Óskar Häsler Sveinsdóttur lögfræðings.

Ólafur kemur úr atvinnulífinu til starfa í ráðuneytinu en undanfarin ár hefur hann verið forstöðumaður sölu- og samskiptasviðs hjá íslenska nýsköpunarfyrirtækinu Carbon Recycling International. Áður hefur hann starfað sem verkefnisstjóri hjá Orkuveitu Reykjavíkur á sviði umsýslu- og almannatengsla og sinnti þar m.a. samskiptum við sveitarfélög.

Bakgrunnur Ólafs er jafnframt úr fjölmiðlum og almannatengslum og hefur hann rekið eigin starfsemi á því sviði fyrir ýmis fyrirtæki og samtök. Einnig starfaði hann sem fréttamaður hjá RÚV Sjónvarpi, Stöð 2 og Morgunblaðinu. Hann stundaði nám við lagadeild HÍ og á að baki margvísleg störf að félagsmálum.

Ólafur er kvæntur Írisi Erlingsdóttur, söngkennara í Söngskólanum í Reykjavík, og eiga þau þrjú uppkomin börn.