Ólafur Ólafsson, einn sakborninga í Al-Thani málinu, segir að ákvörðun dómara um að fresta aðalmeðferð í málinu hafi ekki komið sér á óvart. „Þetta fór bara eins og vænta mátti. Okkur [Sigurði Einarssyni] eru þarna skipaðir nýir verjendur.“

Alger óvissa var með framhald málsins þar til dómari kynnti ákvörðun sína í morgun. Gestur Jónsson, verjandi Sigurðar, og Ragnar H. Hall, verjandi Ólafs, sendu héraðsdómi bréf á mánudag þar sem þeir sögðu sig frá málinu. Dómari neitaði að taka þá beiðni til greina, en í kjölfar þess ítrekuðu lögmennirnir þá afstöðu sína að þeir væru í raun hættir. Sagði í svarbréfi Gests til dómsins að hann yrði ekki neyddur gegn samvisku sinni til að sinna verjendaskyldum í málinu.

Hvorki Ragnar né Gestur mættu í dómssal í morgun, en bæði Sigurður og Ólafur mættu. Í ljósi einarðrar afstöðu lögmannanna sagði Pétur Guðgeirsson héraðsdómari að ljóst væri að hann ætti ekki annan kost en að leysa þá frá starfanum, þrátt fyrir synjun hans þess efnis frá því á mánudaginn. Var Ólafi og Sigurði skipaðir nýir verjendur og aðalmeðferð frestað um óákveðinn tíma til að gefa nýjum verjendum færi á að kynna sér málið.

Ólafur segir í samtali við vb.is að sér þyki mjög athyglisvert að tveir af færustu lögmönnum landsins skuli hafa stigið þetta skref. „Ég virði ákvörðun Ragnars mjög mikils. Ég er mjög svekktur að missa þarna mjög hæfan lögmann, sem hefur unnið að málinu fyrir mig í fjögur ár, en ég fæ annan mjög góðan í staðinn. Ég held að hann hafi tekið þessa ákvörðun með það að leiðarljósi að þeir sem eru í þessu kerfi átti sig á því sem er að gerast.“ Hann segist ekki vita hvort fráganga lögmannanna muni hafa áhrif á dómskerfið. „Ég held að þeir tveir hafi hreina samvisku.“

Björn Þorvaldsson, saksóknari í málinu, lítur öðrum augum á málið. Fyrir rétti í dag lét hann bóka þá skoðun sína að með því að segja sig frá málinu hafi þeir Gestur og Ragnar aðeins haft það í huga að fresta málinu. Krafðist hann þess að lagðar yrðu réttarfarssektir á þá.