Ólafur F. Magnússon, fráfarandi borgarstjóri Reykjavíkur, gagnrýndi Óskar Bergsson, borgarfulltrúa Framsóknar, harðlega þegar hann brást við ræðu Óskars.

Sagði hann Óskar hafa hlotnast völd langt umfram lýðræðislegt umboð. Hefðu Framsóknarmenn aðeins náð inn manni með naumindum í borgarstjórn, með um 6% atkvæða.

Óskar, sem varaborgarfulltrúi, hafi því aðeins um 3000 atkvæði bakvið sig.  Sjálfur hafi hann, þ.e. Ólafur, starfað með miklu meiri lýðræðislegra umboð.

Þá gagnrýndi Ólafur hvernig Óskar talaði niður til samherja sinna í borgarstjórn:

„Það er óþolandi hvernig hann talar niður til t.d. Dags B. Eggertssonar,” sagði Ólafur. “Sjálfumgleði þessa manns, [Óskars] er ótrúleg.”

Maður sem hefur skilið við prinsipp

Dagur B. Eggertsson, kvaðst jafnframt telja ræðu Óskars býsna angistarfulla og lýsa „vanlíðan manns sem hefur skilið við áður yfirlýst prinsipp. Það hryggir mig,” sagði Dagur meðal annars.