Ólafur F. Magnússon, fráfarandi borgarstjóri sagði Sjálfstæðisflokkinn þrisvar hafa svikið sig. Fyrst á landsfundi árið 2001, næst með því þegar Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson átti að hafa handsalað viðræður um meirihlutasamstarf eftir kosningar árið 2006 og nú með samstarfsslitum í borgarstjórn.

Ólafur lýsti vantrausti á nýjan meirihluta í borgarstjórn þegar hann óskaði að taka til máls áður en gengið var til atkvæða.

„Ég treysti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur ekki til að leiða farsællega nýjan meirihluta,” sagði Ólafur.

Vitnaði hann í orð Jóns Arasonar biskups, þegar hann var leiddur til höggstokksins: „Vondslega hefur oss veröldin blekkt, vélað og tælt oss nógu frekt, ef eg skal dæmdr af danskri slekt og deyja svo fyrir kóngsins mekt.”

Ólafur tók þó fram að hann ætlaði ekki að líkja siðaskiptum við þau umskipti sem orðið hafa í borgarstjórn, en þó standi eftir að hann hafi verið blekktur í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

„Vélráð, óheilindi, lygar svik og prettir hafa sett mark sitt á kjörtímabilið sem nú er hálfnað. Vélráð eru brugguð í Valhöll og menn þar telja sig hafa leitt mig til slátrunar í þriðja sinn,” sagði Ólafur. „En það er misskilningur.”

Segir fyrirmælin koma úr Valhöll

Hefðu Vilhjálmur Vilhjálmsson og Kjartan Magnússon haft uppi miklar heitstrengingar í upphafi samstarfsins að svíkja ekki samstarfið, en hefðu nú gengið á bak orða sinna.

Hefði borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðismanna ekki tekið ákvarðanir sjálfir í málinu, heldur hlýtt beinum fyrirmælum úr Valhöll.

„Þetta er mjög ólýðræðislegt og brot á skyldum okkar við borgarbúa,” sagði Ólafur.

Hét hann því að vinna af meiri krafti en nokkru sinni fyrr í þágu Reykvíkinga og Reykjavíkurborgar.

Í lok ræðu sinnar sagði Ólafur F. að hann myndi veita Sjálfstæðisflokknum aðhald, hann hefði mikið fylgi meðal borgarbúa og þá sérstaklega í flugvallarmálinu.

„Ég kem aftur,“ sagði Ólafur F. að lokum.