Ólafur Torfason, hótelstjóri og eigandi Grand Hótel í Reykjavík, og synir hans hafa í gegnum félag sitt keypt Hótel Húsavík. Þeir hafa leigt reksturinn af Pétri Kjartanssyni, eiganda og framkvæmdastjóra hótelsins, síðastliðin sjö ár eða frá byrjun árs 2006. Kaupin gengu í gegn í síðustu viku.

Herbergin á Hótel Húsavík eru 70 talsins.

Pétur vill í samtali við vb.is hvorki gefa upp kaupverðið né ástæðu þess að hann ákvað að selja hótelið: „Ég er orðinn svo gamall í hettunni að ég hef lært eitt í bisness sem hefur reynst mér ágætlega. Það er að kaupa þegar aðrir vilja selja og selja þegar aðrir vilja kaupa.“

Pétur segir reksturinn hafa gengið ljómandi vel í gegnum tíðina. „Þetta er alvöru hótel, með þeim fínustu á landsbyggðinni.“

Greiddu um 50 milljónir í leigu

Rekstrartekjur Hótels Húsavíkur ehf námu tæpum 50,3 milljónum króna árið 2011. Það um tveimur milljónum minna en árið 2010. Þar af námu húsaleigutekjur árið 2011 48 milljónum króna. Hagnaður félagsins nam 20,4 milljónum króna þetta árið samanborið við 76 milljóna króna hagnað árið 2010.

Eignir félagsins námu 282,5 milljónum króna í lok ársins miðað við 248 milljóna eignir í lok árs 2010. Mestu munar um eignarhluti í öðrum félögum. Þeir voru bókfærðir á 106,8 milljónir króna í lok árs 2011 sem var 49,5 milljónum krónum meira en árið 2010. Eigið fé félagsins var neikvætt um 65 milljónir króna sem var um 20 milljónum minna en í lok árs 2010. Skuldir félagsins námu 347,6 milljónum króna í lok ársins.