Ólafur Halldórsson hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri rekstrarlausna Skýrr. Ólafur hefur starfað hjá Skýrr frá árinu 2001. Hann hefur setið í framkvæmdastjórn Skýrr síðan 2006, sem forstöðumaður verkefnastofu Skýrr. Hann hefur jafnframt verið staðgengill framkvæmdastjóra rekstrarlausna undanfarin ár. Ólafur mun áfram bera ábyrgð á verkefnastofu, samhliða nýju starfi sem framkvæmdastjóri rekstrarlausna að því er segir í tilkynningu.

Ólafur útskrifaðist með meistaragráðu í rafmagnsverkfræði frá Háskólanum í Álaborg árið 1989. Áður en hann kom til Skýrr starfaði hann hjá Reiknistofu bankanna, Íslenska járnblendifélaginu og Tölvumiðstöð sparisjóðanna.

Þorvaldur E. Sigurðsson, fráfarandi framkvæmdastjóri rekstrarlausna Skýrr, tekur á næstunni við starfi framkvæmdastjóra hjá sprotafyrirtækinu Verne. Umrædd breyting á högum Þorvaldar er í góðri sátt við Skýrr þar sem hann hefur átt mjög farsælan feril undanfarin níu ár.