Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands er á meðal fyrirlesara á árlegu fyrirlestrarmaraþoni Háskólans í Reykjavík sem verður haldið á föstudaginn.

Yfir 20 erindi verða flutt og er hvert erindi um sex mínútur. Erindin gefa innsýn í það fjölbreytta rannsóknarstarf sem unnið er innan háskólans. Í hádeginu veitir forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, þjónustu-, kennslu- og rannsóknarverðlaun HR. Starfsfólk kýs þann aðila sem hlýtur rannsóknarverðlaunin en nemendur handhafa kennslu-, og þjónustuverðlauna. Hann mun jafnframt flytja erindi á Fyrirlestramaraþoni HR.

Meðal efnis í fyrirlestrum er Evrópurétturinn, eiginleikar vindsins og áhrif hans á brýr, þroskastig mannauðsstjórnunar, gerendur kynferðisbrota, tilraunasálfræði, hlutverk stjórnarmannsins og margt fleira.