Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, mun taka við starfi sérfræðings í málefnum landamæra í dómsmálaráðuneytinu um næstu mánaðamót. Í stað hans mun Grímur Hergeirsson, staðgengill lögreglustjórans á Suðurlandi, vera tímabundið í embætti lögreglustjóra á Suðurnesjum. Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðs.

Kemur fram í tilkynningunni að flutningurinn gefi ráðuneytinu og lögreglunni færi á að nýta sérþekkingu hans og reynslu á sviði landamæravörslu. Þá sérstaklega þegar kemur að Schengen samstarfinu.

Flutningur Ólafs er á grundvelli ákvæðis um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en ákvæðinu var breytt árið 2016, meðal annars í því skyni að gefa skipuðum forstöðumönnum ríkisins færi á að flytja sig í annað starf og auka þannig hreyfanleika forstöðumanna.

Margrét Kristín Pálsdóttir, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, mun gegna stöðu aðstoðarlögreglustjóra á sama tímabili og Grímur er lögreglustjóri, frá 1. september næstkomandi til 1. nóvember. Embættið verður auglýst laust til umsóknar við fyrstu hentugleika.