Forsætisráðherra hefur skipað Ólaf Hjálmarsson, skrifstofustjóra í fjármálaráðuneytinu, í embætti hagstofustjóra til næstu fimm ára frá 1. mars nk. Um starf hagstofustjóra sóttu 9 manns.

Frá og með nýliðnum áramótum er Hagstofan sjálfstæð stofnun sem heyrir undir forsætisráðherra en hafði fram að þeim tíma stöðu ráðuneytis.

Ólafur er fæddur 1957. Hann lauk cand. oecon. prófi frá viðskiptadeild Háskóla Íslands árið 1984 og MA gráðu í þjóðhagfræði frá York University í Toronto árið 1986. Hann hefur verið skrifstofustjóri fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins frá árinu 1999 og staðgengill skrifstofustjóra á árunum 1992 til 1999.