*

þriðjudagur, 20. ágúst 2019
Innlent 22. mars 2012 07:05

Ólafur í Samskipum hefur keypt 70% í Asia Seafood

Hagnaður asíska fyrir­tækisins var um 170 milljónir króna og 70% hlutur Iceland Seafood var færður til bókar á um 600 milljónir.

Bjarni Ólafsson

Ólafur Ólafsson, stjórnarfor­maður Samskipa, hefur eignast asíuhluta Iceland Seafood International, að því er kemur fram í frétt Intrafish. Þar er haft eftir tveimur vel tengdum heimildarmönnum að Ólafur hafi eignast, í gegnum félagið Neptune Holdings BV, 70% hlut Iceland Seafood í fyrirtækinu Asia Seafood.

Helgi Anton Eiríksson, forstjóri Iceland Seafood, staðfestir að Asia Seafood hafi verið selt fyrir rúmum mánuði en vildi hvorki staðfesta né neita því að Ólafur stæði á bak við kaupin.

Ólafur er einn fjögurra einstaklinga sem ákærðir hafa verið fyrir meinta markaðsmisnotkun í hinu svokallaða Al-Thani máli. Hinir þrír eru þeir Sigurður Einarsson, fyrrum stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri bankans, og Magnús Guðmundsson, sem var yfir Kaupþingi í Lúxemborg. Ólafur er sjálfur ákærður fyrir hylmingu yfir brotum hinna og peningaþvætti auk þess sem hann er ákærður fyrir markaðsmisnotkun eins og þeir reyndar allir fjórir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.