Ólafur Ólafsson, löngum kenndur við Samskip, vinnur ásamt konu sinni og fleirum að markaðssetningu á íslenska hestinum í Frakklandi. Viðskiptablaðið hefur heimildir fyrir því að í kringum 80 milljónir króna fari í verkefnið sem muni taka nokkur ár.

Ólafur vill ekki staðfesta töluna en segir verkefnið kosta tugi milljóna sem hann greiði úr eigin vasa. Nokkrir starfsmenn hafa verið ráðnir til starfsins.

„Konan mín er úr sveit og við höfum stundað hestamennsku í mörg ár okkur til ánægju. Okkur hefur líka lengi þótt íslenski hesturinn vera einn af demöntum Íslands og Frakkar þurfa að kynnast honum betur,“ segir Ólafur.

Blaðamenn og sjónvarpsfólk mun m.a. koma hingað á vegum Ólafs og konu hans og fjalla um íslenska hestinn við fjárrekstur.

Ólafur neitar því að markaðsátakið sé til þess hugsað að hann geti komið eigin hestum í verð. Þvert á móti segir hann það eiga að gagnast öllum sem vilji selja íslenska hestinn og búnað honum tengdum ytra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .