„Það er allt á kafi hjá okkur. Við höfum ekki fengið vinnufrið til undirbúa útsöluna og því urðum við að loka búðinni í dag,“ segir Ólafur Vigfússon, eigandi Sportbúðarinnar á Krókhálsi sem fyrir löngu er þekkt fyrir sölu á veiðibúnaði.

Unnið er að talsverðum breytingum á búðinni um þessar mundir, svo sem flutningi á rekstri hennar. Verslunin flytur þó ekki langt heldur aðeins yfir götuna, frá Krókhálsi 5 að Krókhálsi 4 þar sem Harðviðarval er til húsa. Nýja verslun á að opna í mars og verður þar áhersla lögð á vörur til sjóstangveiði.

Í tilefni af flutningnum hefur verið blásið til rýmingarútsölu sem hefst á morgun. Til að auðvelda flutninginn yfir götuna er stefnt að því að selja allar vörur Sportbúðarinnar.

Spurður hvort fólk þurfi að mæta snemma á útsöluna í fyrramálið ætli það að næla sér í vörur sem það hafi augastað á svarar Ólafur: „Ég myndi nú halda það!“