Ólafur Ísleifsson hagfræðingur segir að samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS) sé þess eðlis að ákveðnir þættir sæti stöðugri endurskoðun. ,,Þetta samkomulag er í stöðugri þróun og 18% stýrivextir eru ekki tala sem er klöppuð í stein út gildistíma samkomulagsins.”

Ólafur segir að sú ákvörðun að setja vexti í 18% hafi verið eitt þeirra atriða sem hafi verið kynnt á sínum tíma sem ákvörðun Seðlabankans. ,,En auðvitað hljóta stýrivextir Seðlabankans að vera til endurskoðunar á vettvangi samkomulagsins eins og efnahagsástandið þróast og tilefni gefast til endurskoðunar. Mér finnst það sjálfsagt mál að taka það upp við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að vextir verði lækkaðir.”

-          Þér finnst ekki vandamál að ný ríkisstjórn taki upp viðræður um samkomulagið?

,,Ég tel sjálfsagt að ræða stýrivexti við sjóðinn og skýrari stefnu í gjaldeyris- og peningamálum. Sú stefna hefur verið ómarkviss eins og sést af því að 18% vextir á haftakrónu gengur ekki upp.”

Ólafur segir að ákvörðun um 18% stýrivexti virðist hafa verið tekin með það í huga að gjaldeyrisviðskipti væru frjálsari en þau eru. ,,Þú finnur engan sem heldur því fram að svona mikil gjaldeyrishöft og nú eru kalli á stýrivexti upp á 18%. Þessir 18% vextir virðast hafa verið undirbúningur að því að fleyta krónunni sem frjálsari mynt en nú er raunin en ekki sem haftagjaldmiðli.”