Ólafur Örn Nielsen hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Miracle, en hann hefur frá miðju síðasta ári leitt uppbyggingu ráðgjafar félagsins á sviði skýjalausna. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Ólafur Örn hefur í rúm 15 ár starfað í upplýsingatækni við hugbúnaðarþróun, markaðsmál, stjórnun og rekstur fyrirtækja. Hann var áður aðstoðarforstjóri Opinna Kerfa, framkvæmdastjóri Kolibri, vefmarkaðsstjóri WOW air og hefur auk þess starfað sem stjórnendaráðgjafi.

Miracle er ráðgjafarfyrirtæki á sviði upplýsingatækni, stofnað 2003 og hefur sérhæft sig í umsjón, þróun og úrvinnslu gagna, rekstri gagnakerfa, hönnun skýjalausna og tæknilegri stefnumótun fyrir fyrirtæki og stofnanir. Meðal viðskiptavina félagsins eru Íslandsbanki, Hagar, Arion Banki, Salt Pay, Isavia, Íslensk erfðagreining og Seðlabanki Íslands.

Starfsmenn Miracle, sem eru í dag um 25, eru með vottanir frá Microsoft, Oracle og í skýjalausnum á borð við AWS og Azure. Með ráðningu Ólafs Arnar stendur til að efla enn frekar þjónustu fyrirtækisins á sviði skýjalausna og stafrænnar þróunar. Ólafur Örn er kvæntur Árdísi Hrafnsdóttur lögfræðingi og saman eiga þau þrjú börn.

Ólafur Örn Nielsen, framkvæmdastjóri Miracle:

„Miracle er stöndugt fyrirtæki skipað öflugu teymi sérfræðinga sem njóta virðingar og trausts innan upplýsingatæknigeirans. Það er því bæði heiður og áskorun að taka við hlutverki framkvæmdastjóra og leiða fyrirtækið inn í nýja tíma. Við ætlum okkur stóra hluti þar sem skýjalausnir og stafræn þróun gegna vaxandi og mikilvægu hlutverki í rekstri fyrirtækja.“