*

mánudagur, 24. febrúar 2020
Innlent 22. febrúar 2019 14:49

Karl Gauti og Ólafur í Miðflokkinn

Þremur mánuðum eftir að hafa verið reknir úr Flokki fólksins ganga þeir Karl Gauti og Ólafur í Miðflokkinn.

Ritstjórn
Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson eru þingmenn Miðflokksins.
vb.is

Þingmennirnir Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason hafa sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að þeir hafi ákveðið að ganga til liðs við þingflokk Miðflokksins frá og með deginum í dag.

Þingmennirnir voru í Flokki fólksins en eftir að upptökur af samtölum þeirra og fjögurra þingmanna Miðflokksins á barnum Klaustri í miðborg Reykjavíkur láku í fjölmiðla í lok nóvember ákvað stjórn Flokks fólksins að reka þá úr flokknum. Þeir hafa því verið utan þingflokks í tæpa þrjá mánuði.

„Á vettvangi Miðflokksins teljum við okkur geta náð betri árangri í baráttumálum okkar og styrkt málefnastöðu flokksins," segir í tilkynningu Ólafs og Karls Gauta. „Við höfum sameiginlega sýn á sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar, yfirráð hennar á auðlindum sínum og mikilvægi vestrænnar samvinnu. Við teljum að á vettvangi Miðflokksins styrkjum við stöðu okkar á Alþingi til að knýja á um framgang þeirra málefna, sem kjósendur treystu okkur fyrir í síðustu alþingiskosningum."

Ólafur er þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður og Karl Gauti er þingmaður Suðurkjördæmis.