Svo virðist sem Ólafur Ólafsson, kenndur við Samskip, og Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, séu ósammála um að hve miklu leyti Sigurður kom að lánveitingu Kaupþings til Gerlands, félags í eigu Ólafs, í tengslum við kaup Sheikh Mohamed Al Thani á 5,01% hlut í bankanum skömmu fyrir fall Kaupþings.

Í greinargerð Sigurðar segir að hann hafi, samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, ekkert umboð til þess að taka ákvörðun í einstökum viðskiptum bankans, þar með talið lánveitingum til einstakra viðskiptavina hans, umfram það umboð sem hann hafði sem formaður lánanefndar stjórnar. Í greinargerðinni segir að þar sem hann hafi ekki haft slíkt umboð sé ómögulegt að hann hafi með einhverjum hætti getað tekið ákvarðanir um einstök viðskipti sem hafi falið í sér umboðssvik.

Þessi fullyrðing Sigurðar stangast hins vegar á við það sem segir í greinargerð Ólafs Ólafssonar. Þar segir að Ólafur hafi aldrei haft minnstu ástæðu til að ætla að lánið til Gerlands væri á einhvern hátt andstætt regluverki bankans. Heimildir til að skuldbinda bankann út á við voru opinberar og í þeim komi fram að Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson hafi haft ótakmarkaða heimild til að skuldbinda bankann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.