Ólafur Ólafsson, sem var einn af aðaleigendum Kaupþings fyrir hrun, hefur ákveðið að áfrýja al-Thani dómnum sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Þórólfur Jónsson, verjandi Ólafs, sendi fjölmiðlum nú klukkan hálfsex.

„Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í hinu svo kallaða Al-Thani máli er mikil vonbrigði og dómsniðurstaðan kom mér, skjólstæðingi mínum og þeim sem til þekkja, í opna skjöldu.  Ég er ósammála þessari niðurstöðu og tel að glögglega hafi verið sýnt fram á sakleysi skjólstæðings míns við réttarhöldin. Við niðurstöðu sem þessa er ekki hægt að una og hefur skjólstæðingur minn því ákveðið að áfrýja málinu til Hæstaréttar,“ segir Þórólfur Jónsson í yfirlýsingu.

Björn Þorvaldsson saksóknari sagði í dag að hann byggist við því að málinu yrði áfrýjað.