Undanfarna mánuði hafa stjórnendur og eigendur Samskipa, sem hefur að stærstum hluta verið Kjalar, unnið að endurskipulagningu á fjárhag Samskipa með viðskiptabönkum félagsins. Þar er hollenski bankinn Fortis mikilvægastur en Arion banki, sem endurreistur var á grunni innlendra eigna gamla Kaupþings, er viðskiptabanki félagsins hér á landi.

Niðurstaða liggur fyrir og hefur SMT (Samskip Management Team) Partners, sem er félag í eigu Ólafs Ólafssonar kaupsýslumanns og stjórnenda Samskipa, eignast tæp 90% hlut í Samskipum með því að leggja til aukið hlutafé.

Viðskiptablaðið hefur ekki fengið uppgefið hversu mikið það er en Arion banki segir að engar skuldir hafi verið afskrifaðar.

Stjórnendurnir sem eiga félagið með Ólafi, sem verið hefur stjórnarformaður og aðaleigandi Samskipa um árabil, eru Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa á Íslandi, Kristinn Albertsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, Hjörleifur Jakobsson stjórnarformaður Samskipa hf. og forstjóri Kjalars, og Jens Holger Nielsen, forstjóri Samskipa í Hollandi.

Kjalar var áður eigandi um 90% hlutar í félaginu. Staða Kjalars er óljós og er nú unnið úr eignum félagsins í samvinnu við lánardrottna félagsins. Ein stærsta eign Kjalars eru gjaldmiðlaskiptasamningar sem félagið gerði við Kaupþing á sínum tíma og er ágreiningur um uppgjör þeirra. Ef samningarnir verða gerðir upp eins og skilanefnd bankans vill er ljóst að félagið á enga framtíð vegna þess hve félagið er skuldugt og jafnvel þótt kröfur Kjalars nái fram að ganga þá verður félagið áfram í erfiðri stöðu. Í ljósi þess er það niðurstaða lánardrottna Kjalars að félagið hafi ekki burði til frekari þátttöku í Samskipum, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.  Auk þess er það ekki talið ákjósanlegt fyrir rekstraröryggi Samskipa að eignarhald sé í óvissu, hugsanlega næstu árin.

Bankarnir Fortis og Arion töldu, eftir samningsferli með stjórnendum og hluthöfum, að Ólafur og samstarfsmenn hans gætu tryggt að lán til Samskipa yrðu greidd til baka. Bankarnir fóru fram á að lán til félagsins yrðu ekki afskrifuð, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, heldur yrði lengt í lánum og tryggt að nýjir eigendur gætu ekki greitt arð út úr félaginu eftir eigin geðþótta.

Fjárhagsleg staða Samskipa hefur verið þung og hafa kaup félagsins á erlendum félögum árið 2005 reynst því dýrpekypt. Eftir fjárhagslega endurskipulagningu er starfsemin talin standa traustum fótum.

Sjá ítarlega umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun og er nú aðgengilegt á vefnum fyrir áskrifendur.