FL Group á í lokaviðræðum við athafnamanninn Ólaf Ólafsson um sölu á Icelandair Group, samkvæmt heimildum breska viðskiptablaðsins Financial Times (FT).

Viðskiptablaðið greindi frá því þann 20. september að FL Group útilokaði ekki að selja Icelandair beint í stað þess að skrá félagið, eins og tilkynnt var um fyrr á þessu ári.

Samkvæmt heimildum FT er söluverðið á bilinu 46-65 milljarðar króna og talið er að söluhagnaður FL Group verði um 20 milljarðar króna.

FL Group tilkynnti í febrúar á þessu ári að félagið myndi skrá Icelandair í Kauphöll Íslands á þessu ári.

Sérfræðingar telja að betra verð fáist fyrir Icelandair sé það selt beint til fjárfesta, en íslenski hlutabréfamarkaðurinn hefur verið óstöðugur eftir að hafa tekið dýfu í kjölfar neikvæðrar umfjöllunar erlendra greiningaraðila og fjölmiðla um íslenska fjármálakerfið og bankana.