Ólafur Ólafsson, kenndur við Samskip og einn af helstu hluthöfum í Kaupþingi á sínum tíma, hafnar þeim ásökunum sem felast í ákæru sérstaks saksóknara í Kaupþingsmálinu svokallaða. Ólafur er ákærður fyrir hlutdeild í meintum umboðssvikum, hlutdeilt í meintri markaðsmisnotkun og fyrir að hafa tjáð sig um það þegar sjeik Mohammed bin Khalifa Al-Thani keypti 5,01% hlut í Kaupþingi seint í september árið 2008 fyrir 26 milljarða króna. Örfáum dögum fór bankinn í þrot. Fram hefur komið að Ólafur hafði þekkt Al-Thani um nokkurt skeið áður en viðskiptin gengu í gegn og hafi Kaupþing lánað honum fyrir kaupunum.

Al-Thani hafði nokkrum mánuðum fyrr ætlað að kaupa tæpan 13% hlut í Alfesca fyrir rúma fimm milljarða króna. Ólafur var á þeim tíma helsti hluthafi Alfesca. Al-Thani hættir síðar við kaupin.

Fram kemur í yfirlýsingu Ólafs í tengslum við málið segir að við rannsókn á málinu hafi m.a. verið gerð húsleit á skrifstofum Ólafs og annarra þeirra sem ákærðir eru í málinu, símar hleraði og leitað bæði í hesthúsi og verkfærageymslu Ólafs.

Í yfirlýsingu Ólafs um málið segir m.a.:

„Ég hafna alfarið ásökunum sérstaks saksóknara og lýsi mig saklausan af þeim öllum. Í upphafi rannsóknar þessa máls var fullyrt að Sheikh Mohammed bin Khalifa Al Thani hefði ekki komið að viðskiptunum. Þessar ásakanir hafa að fullu verið hraktar og Sheikh Mohammed bin Khalifa Al Thani hefur staðfest við sérstakan saksóknara að hann hafi einn staðið að kaupunum. Ég hafði því vonað að rúmlega þriggja ára rannsókn með tilheyrandi skoðun bankagagna á Íslandi og erlendis, símhlerunum, yfirheyrslum, húsleit á skrifstofum, í íbúðarhúsum, hesthúsi og verkfærageymslu, myndi leiða fram hið rétta í þessu máli sem er það að ég hef engin lög brotið. Ákæra þessi kemur mér því vægast sagt á óvart.“

Þá segir í yfirlýsingunni:

„Sérstakur saksóknari hefur birt ákærur í svokölluðu Al Thani máli sem tengist kaupum Sheikh Mohammed bin Khalifa Al Thani á 5,01% hlutafjár í Kaupþingi banka hf. í september 2008. Þar kemur fram að ég er einn hinna ákærðu.

1. Hlutdeild í meintum umboðssvikum:

Í fyrsta lagi er ég ákærður fyrir hlutdeild í meintum umboðssvikum stjórnenda Kaupþings banka en til vara fyrir hylmingu og peningaþvætti vegna láns Kaupþings banka til félags í minni eigu sem lánaði fjárhæðina áfram til félags í eigu Sheikh Mohammed bin Khalifa Al Thani. Fyrir liggur að þetta lán var hluti af fjármögnun ofangreindra kaupa ásamt öðru láni sem Sheikh Mohammed bin Khalifa Al Thani lagði fram persónulega ábyrgð fyrir.“

2. Hlutdeild í meintri markaðsmisnotkun:

Í öðru lagi er ég ákærður fyrir hlutdeild í meintri markaðsmisnotkun. Sérstakur saksóknari telur að milliganga um að koma viðskiptunum á og samskipti mín við Sheikh Mohammed bin Khalifa Al Thani feli í sér refsiverða hlutdeild í meintri markaðsmisnotkun stjórnenda Kaupþings banka. Allar vangaveltur um aðkomu mína að kaupum Sheikh Mohammed bin Khalifa Al Thani með þeim hætti að einhver hagnaðarhlutdeild ætti að rata til mín eru rangar.

3. Meint markaðsmisnotkun:

Í þriðja lagi er ég ákærður fyrir meinta markaðsmisnotkun með því að tjá mig opinberlega um þessi viðskipti. Sérstakur saksóknari telur að uppbygging viðskiptanna hafi verið önnur en hún var og þess vegna hefði ég átt að geta þess í opinberri umræðu. Vegna ábyrgðar Sheikh Mohammed bin Khalifa Al Thani á endurgreiðslu lánanna frá Kaupþingi banka voru þær yfirlýsingar sem ég gaf í fullu samræmi við lög.

Ætlar ekki að tjá sig

„Að svo komnu mun ég ekki tjá mig frekar um mál þetta opinberlega. Ragnar H. Hall hrl. mun verða verjandi minn og ég mun láta honum eftir að meta það hvenær rétt sé að fjalla um málið opinberlega á meðan það er til meðferðar hjá dómstólum,“ segir í tilkynningu Ólafs.