Ólafur Ólafsson, fjárfestir og einn sakborninga í Al-Thani málinu svokallaða, var meðal farþega í þyrlu sem lenti í slysi á Hengilssvæðinu í gærkvöldi. Ólafur var í þyrlunni ásamt erlendum viðskiptafélögum sínum og sluppu allir tiltölulega ómeiddir.

Ólafur hefur nú sent frá sér stutta yfirlýsingu þar sem hann kveðst þakklátur fyrir að allir sluppu tiltölulega vel frá atvikinu. Þá þakkar hann björgunarfólki og starfsfólki Landspítalans fyrir skjót viðbrögð og faglega umönnun.

Yfirlýsing Ólafs er svohljóðandi:

„Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum var ég farþegi í þyrlu sem lenti í óhappi á Hengilssvæðinu suður af Nesjavallavirkjun fyrr í kvöld. Mikilvægast er að allir sluppu tiltölulega vel frá þessu atviki miðað við aðstæður og fyrir það erum við þakklát. Fyrir hönd okkar vil ég þakka öllum hlutaðeigandi, þar með talið björgunarfólki og starfsfólki Landspítalans, fyrir skjót viðbrögð og faglega umönnun.

Í þyrlunni voru þrír viðskiptafélagar mínir frá Norðurlöndunum og íslenskur flugmaður. Um var að ræða útsýnisflug með erlendu gestina og ætlunin var að lenda aftur í Reykjavík.“