"Það sem sárlega hefur vantað í umræðu um bankahrunið eru upplýsingar um það sem gerðist. Nú eru þær komnar fram, í vandaðri skýrslu, og það skiptir miklu fyrir okkar starf og umræðu um bankahrunið almennt," segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari vegna bankahrunsins.

Hann segir mörg mál sem nú þegar eru til rannsóknar tengjast þeim málaflokkum sem rannsóknarnefnd Alþingis tilgreinir sérstaklega í skýrslu sinni að þurfi að rannsaka frekar.

Ólafur Þór segir skýrsluna vera gríðarlega umfangsmikla úttekt á umhverfinu sem hér var. "Þetta er gríðarlega umfangsmikil úttekt á því umhverfi sem hér var og þannig gefur skýrslan góða mynd af umhverfinu sem þau meintu brot, sem við höfum til umfjöllunar, spretta upp úr. Skýrslan er gríðarlega mikilvægt innlegg í þá vinnu sem þegar er hafin, og mun styrkja rannsóknirnar á öllum vígstöðum mikið."

Ólafur Þór segir að nokkur mál séu á lokastigum rannsóknar.